Loðnir laumufarþegar í strætó

mbl 3. júní Gunnar Dofri Ólafsson:

Tveir litl­ir hund­ar tóku sér far með stræt­is­vagni ásamt eig­anda sín­um í Reykja­vík á dög­un­um. Það væri ekki í frá­sög­ur fær­andi nema fyr­ir þær sak­ir að gælu­dýr eru ekki leyfð í stræt­is­vögn­um Strætó.

Jó­hann­es Svavar Rún­ars­son, for­stjóri Strætó, seg­ir enga breyt­ingu hafa orðið á stefnu Strætó þess efn­is að gælu­dýr eru ekki leyfð í vögn­un­um. Hund­arn­ir hafa því verið í vagn­in­um í óleyfi, þó svo að blaðamaður mbl.is geti vottað fyr­ir að þeim var afar vel tekið af sam­ferðamönn­um þeirra.

„Við tók­um mál­efni gælu­dýra í stræt­is­vögn­um á stjórn­ar­fundi í vor þar sem til okk­ar var beint að skoða þessi mál með til­liti til þess hvernig aðrir eru að gera þetta. Það er hóp­ur í gangi sem er að tala við not­end­ur strætó, lækna og fleiri og skoða hvernig þetta er gert ann­arsstaðar,“ seg­ir Jó­hann­es.

„Auðvitað vit­um við að þetta er leyft víðast hvar ann­arsstaðar, en það er ekki búið að gera nein­ar breyt­ing­ar, þannig að þarna hafa menn laumað þeim inn,“ seg­ir Jó­hann­es.

„Ég á hund sjálf­ur og við Íslend­ing­ar ætt­um ekki að vera mikið öðru­vísi en aðrar þjóðir. Ég held það sé ekki meira of­næmi hér en ann­arsstaðar. Þetta er auðvitað háð ákveðnum regl­um. Við erum bara að viða að okk­ur upp­lýs­ing­um og leggj­um vænt­an­lega til­lögu fyr­ir stjórn á næstu miss­er­um,“ seg­ir hann.

Mjög viðkvæmt mál

Jó­hann­es seg­ir þó að það sé ekki annað í gangi en upp­lýs­inga­söfn­un, og hafi marg­ir sett sig í sam­band við Strætó og lýst skoðun sinni á mál­inu, bæði með og á móti því að leyfa gælu­dýr í strætó. „Við reyn­um að fá not­end­ur með,“ seg­ir Jó­hann­es, en ekki sé hægt að sía út hvort ábend­ing­ar og at­huga­semd­ir sem ber­ast Strætó komi frá not­end­um eða frá fólki sem ekki noti vagn­ana en hafi eft­ir sem áður skoðun á þeim regl­um sem um þá gilda.

„Það er erfitt fyr­ir mig að greina á milli hvort það er not­andi sem send­ir þess­ar at­huga­semd­ir, en auðvitað eiga not­end­urn­ir, og vagn­stjór­arn­ir, að hafa mest um þetta að segja. En satt best að segja er þetta mjög viðkvæmt mál og við ætl­um að vanda vel til verks­ins,“ seg­ir Jó­hann­es.

gunnardofri@mbl.is