Óskiljanleg tillaga

Jórunn Sörensen:

  1. gr. Hreinlæti og dýr í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 hefst á þessari setningu: Ekki má hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgskjali 3.

Í fylgiskjali 3 er síðan eftirfarandi upptalning: Heilbrigðis- og meðferðarstofnanir; Skólar; Lækna- og tannlæknastofur; Sjúkrahús og aðgerðarstofur; Vistarverur handtekinna manna; Heilsuræktarstöðvar; Íþróttastöðvar og íþróttahús; Gæsluvellir; Snyrtistofur; Nuddstofur og sjúkraþjálfun; Sólbaðsstofur; Húðflúrstofur; Samkomuhús s.s. kirkjur, leikhús, hljómleikasalir, söfn og kvikmyndahús; Gististaðir; Veitingastaðir; Sumarbúðir fyrir börn.

Reglugerðin veitir síðan undarþágu fyrir hjálparhunda fólks með fötlun.

Sem sagt – þarna er stóri bróðir kominn – ríkisvaldið – og ákveður að t.d. veitinga- og gististaðir megi ekki hleypa inn fólki ef það hefur hundinn sinn með sér. En svo gerast allt í einu undur og stórmerki. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi tillögu á fundi borgarstjórnar 19. maí sl.:

Borgarstjórn samþykkir að beina þeim tilmælum til ríkisvaldsins að rýmka reglur um hollustuhætti og matvæli svo það sé hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það kýs að haga reglum um á hvaða stöðum sé leyfilegt að hafa dýr, svo sem á kaffihúsum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum, samkomuhúsum o.s.frv. Það er réttlætismál að sveitarfélög hafi svigrúm gagnvart eigendum slíkra staða að leyfa dýrahald ef þeir óska.

Er þetta grín? Í stað þess að stóri bróðir ráði fyrir eigendur veitinga- og gististaða hvort manneskja með hund fái inngöngu vill borgin að valdið fari til næststærsta bróður – sveitarfélagsins. Af hverju í ósköpunum gekk tillagan ekki út á að valdið fari beint til eiganda staða í fylgiskjali 3 því, eins tillagan segir, liggur endanleg ákvörðun hjá þeim.

Tillagan var samþykkt af fulltrúum bæði meiri- og minnihluta en fulltrúar Framsóknarflokksins sátu hjá. Ekki kemur fram í fréttum af málinu að neinn af þessum fulltrúum hafi áttað sig á hve mikið endemis kjaftæði tillagan er. Ef ríkið fer eftir þessum tilmælum gerist það að borgarstjórn og bæjarstjórnir í landinu þurfa, hver um sig, að þrefa um það hvort þær vilja að fólk með hund fái aðgang að veitinga- og gistihúsum bæjarins eða ekki þótt endanlegt vald liggi hjá eigendum umræddra staða.

Nú verða hundaeigendur að leggja allt traust á ríkisvaldið að það sjái fáránleikann í umræddri tillögu og láti valdið um hundinn inni eða úti í hendur eigenda þeirra staða sem fylgiskjal 3 telur upp. Það er réttlætismál.

Netfang mitt er: vorverk@simnet.is