Kaldaprófið 2015

Albert Steingrímsson

Helgina 8.-10. maí s.l. fór fram veiðipróf fyrir standandi rjúpnahunda á Akureyri og nágrenni. Met þátttaka var á þessu prófi sem stóð frá föstudegi fram til sunnudags. Fjórir dómarar sáu um dómgæslu, Pétur Alan Guðmundsson, Svafar Ragnarsson, Öystein Heggelund Dahl og Svein Oddvar Hansen. Dæmt var í þremur flokkum, unghundaflokk, opnum flokk og keppnisflokk. Almennt ríkti mikil ánægja um þetta próf fyrirkomulag þar sem þetta er í fyrsta sinn sem fjórir dómarar dæma svona próf og einnig í fyrsta sinn sem keppt var í öllum flokkum í 3 daga.

Mikið var af fugli á prófsvæðinu og það var því líf og fjör hjá öllum hundum og stjórnendum þeirra. Hundarnir fengu mjög gott tækifæri til að finna fugl, taka stand, reisa fuglinn og eftirleita. Í svona fuglavinnu er nauðsynlegt að samvinna stjórnanda og hunds sé góð og ekki síður að tveir hundar geti leitað á sama svæði samtímis.

Mikils undirbúnings er krafist fyrir fuglahundapróf ef ná á árangri og hafa í vetur verið opnar æfingar á þriðjudögum á vegum fuglahundadeildar HRFÍ. Góður fuglahundur þarf t.d. að hafa mjög gott úthald. Í einu prófi þarf fuglahundur að hlaupa í 60 mínútur að lágmarki til að ná fyrstu einkunn. Hundarnir eru ávallt tveir úti í einu og er þeim sleppt þrisvar sinnum þar sem þeir hlaupa 20 mínútur í senn. Þannig skanna þeir svæðið í fylgd stjórnanda í leit að fugli. Ef hundur finnur fugl þarf ákveðin vinna að fara fram svo allt gangi upp. Hundur þarf að taka stand, reisa fuglinn við skipun stjórnanda, vera rólegur við uppflug, setjast við skot, eftirleita svæðið og að lokum sækja útlagða bráð og skila til stjórnanda. Þær fuglahundategundir sem tóku þátt að þessu sinni voru, Breton, Enskur Setter, Enskur Pointer, Weimeraner og Vorsteh.

Stjórn fuglahundadeildar HRFÍ vill þakka þeim komu að skipulagningu prófsins sem og styrktaraðilum og síðast en ekki síst öllum þátttakendum. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér sportið er bent á heimasíðu fuglahundadeildar HRFÍ www.fuglahundadeild.is

Að lokum minnum fuglahundamenn og konur á að nú er kominn tími til að hvíla þjálfun á heiðinni vegna varps rjúpna og annarra fugla.

Albert Steingrímsson, formaður fuglahundadeildar