Er Reykjavík fyrirmyndarborg?

Jórunn Sörensen skirfar:

Það hefur löngum verið háttur okkar Íslendinga að banna allt hugsanlegt og óhugsanlegt í stað þess að horfa á málið sem viðfangsefni og leysa það. Árið 1924 var hundahald alfarið bannað í Reykjavík og var svo um áratugi. Það þarf ekki að tíunda það að á þessum „bannárum“ var borgin aldrei hundlaus. Þar kom í linnulausum árásum lögreglunnar á hundaeigendur og hunda þeirra – en hundar voru hiklaust dregnir út af heimili sínu og skotnir, að hundavinir risu upp á afturlappirnar og stofnuðu Hundavinafélagið. Hin hógværa krafa félagsins var að fólk mætti eiga sína hunda í friði. Ósk af þessu tagi orsakaði hvílík blaðaskrif og deilur að leitun er að öðru eins.

Árið 1970 birtist sem oftar, grein í Morgunblaðinu um „lögbrjótana“ – hundaeigendur – og í einni þeirra segir:

„Allir vita að allir hundar geta hvenær sem er tryllst og ráðist á fólk. Erlendis bíður fjöldi fólks bana árlega eftir viðureignir við hunda, aðallega börn og aldrað fólk. Í stórborgum, þar sem hundahald er enn leyft (leturbreyting mín) verða tugþúsundir manna árlega fyrir hundsbiti. Skaðabætur vegna fataskemmda nema milljónum árlega.“

Þessi setning: „Í stórborgum þar sem hundahald er enn leyft“ er svo mögnuð að hún er í raun efni í doktorsritgerð um það undarlega viðhorf – sumra – Íslendinga að þeir séu leiðandi afl í heiminum.

Ekki einn einasti Íslendingur sem hefur ferðast til stórborga heimsins – ekki síst borga Evrópu – sér það fyrir sér að París, Stokkhólmur, Osló, Kaupmannahöfn, London, Amstardam og svo framvegis – stórar borgir og minni – verði einn daginn hundlausar. Hvernig gat einhverjum dottið þetta í hug árið 1970? Hélt bréfritari það í raun og veru að sá dagur kæmi – innan tíðar – að íbúar evrópskra borga lóguðu hundunum sínum á einu bretti? Því ekki var hægt að senda þá alla „upp í sveit“ – hunda sem höfðu alið manninn með eiganda sínum í borginni. Þarna freistar höfundur greinarinnar þess sannarlega að gera þjóð sína hlægilega í augum heimsins.

Nú er staðan sú, í þéttbýli á Íslandi, að ef einhvern langar til þess að eignast hund er honum skilt að sækja um leyfi til þar til bærra yfirvalda. Það þarf að skrá hundinn, borga leyfisgjald og síðan endurnýja leyfisgjaldið árlega. Íslendingar eru einir þjóða sem þurfa að sækja um leyfi til yfirvalda til þess að bæta hundi við fjölskyldu sína og greiða síðan árlegan skatt. Í mínum huga er þetta gjörsamlega óviðunandi og fyrir löngu kominn tími til þess að yfirvöld í þessu landi horfist í augu við staðreyndir. Því staðreyndin er sú að fólk í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum á Íslandi vill eiga hunda, ætlar sér að eiga hunda og vill hafa sömu tækifæri og aðstöðu fyrir sína hunda eins og gert er fyrir hundaeigendur og hunda þeirra, í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Netfangið mitt er: vorverk@simnet.is ef þú vilt koma athugasemd á framfæri.