Jórunn Sörensen:
Aðalfundur Cavalier-deildar HRFÍ var haldinn 6. mars sl. Eftir að venjulegum aðalfundarstörfum var lokið bauð formaður deildarinnar, Gerður Steinarsdóttir, Þórhildi Bjartmarz velkomna en hún hafði verið beðin um að fræða félagsmenn um mikilvægi þess að umhverfisþjálfa hvolpa.
Með erindi sýni sýndi Þórhildur fallegar myndir af cavarlier hvolpum og fullorðnum hundum við ýmsar aðstæður.
Fyrirlestur Þórhildar var afar fróðlegur. Hún benti á að um allan heim væri nú talið að eitt það allra mikilvægasta í uppeldi hvolpa væri að umhverfisþjálfa þá. Sú þjálfun byrjar strax í hvolpakassanum og flyst síðan af fullum þunga yfir á eigendur hvolpsins þegar hann kemur á sitt nýja framtíðarheimili. Þórhildur tók ýmis dæmi um hvernig sú þjálfun á að fara fram og við hvaða aðstæður. Þær verða þó ævinlega að vera á forsendum hvolpsins.
Þórhildur vitnaði m.a. í hinn merka hundaþjálfara og atferlisfræðing Anders Hallgren sem benti á muninn á hundi sem er sjálfsöruggur og hundi sem er óöruggur í aðstæður. Það skiptir sköpum að umhverfisþjálfa hvolp þannig að hann verði sjálfsöruggur fullorðinn hundur í öllum aðstæðum.
Þórhildur beindi orðum sínum sérstaklega til ræktenda. Hve mikilvægt það væri að þeir vönduðu val á þeim sem þeir létu fá hvolpa. Þeirra ábyrgð væri mikil.
Orðum Þórhildar var afar vel tekið og ekki síst var dáðst að fallegum cavaliermyndunum og vönduðum undirbúningi. Hún fékk margar spurningar og urðu skemmtilegar umræður.
Ég spurði Gerði, formann deildarinnar, hvort þau fengju oft fyrirlesara á fund hjá sér og sagði hún að þau gerði það ævinlega á aðalfundinum.
Það er mjög til eftirbreytni að deildir HRFÍ stuðli að því að ræktendur og eigendur hunda fái stöðuga fræðslu um allt það besta í umönnun hunda. Því markmið allra sem láta frá sér hvolpa hlýtur jú ævinlega að vera að nýir eigendur sjái til þess að lífsgæði hundsins verði sem allra best.