Mbl: Hiti í hundaeigendum vegna hárra gjalda í höfuðborginni
55% hærra eftirlitsgjald fyrir hunda í Reykjavík en í Hafnarfirði og Garðabæ„Maður spyr sig auðvitað hver rökstuðningurinn sé fyrir hærra gjaldi hér í Reykjavík en annars staðar,“ segir Harpa Stefánsdóttir hundaeigandi.
Harpa flutti nýverið úr Garðabæ til Reykjavíkur. Tíkin Tanja flutti að sjálfsögðu með eiganda sínum en flutningarnir höfðu það í för með sér að Harpa þarf að greiða umtalsvert hærra eftirlitsgjald en hún hefur átt að venjast. Í Garðabæ greiddi Harpa 12.800 krónur á ári í eftirlitsgjald en í Reykjavík þarf hún að greiða 19.850 krónur. Munurinn er 7.050 krónur, eða 55 prósent. Morgunblaðið kannaði verðið í nokkrum sveitarfélögum. Eins og sjá má í meðfylgjandi grafi er verðið langhæst í höfuðborginni. Harpa greindi frá þessu í færslu í Facebook-hópnum Hundasamfélagið og spunnust þar upp miklar umræður. „Já, það er hiti í mörgum hundaeigendum,“ segir Harpa.
Yfir helmingur óskráður
Guðfinna Kristinsdóttir, stjórnandi hjá Hundasamfélaginu, segist hafa gert athugasemdir við þetta háa gjald hjá borginni. „Þeir gefa sér af því að þeir eru stærsta sveitarfélagið að þar sé mest af hundum og þeir fái mest af kvörtunum. Þar af leiðandi þurfi að borga meira þar en í öðrum sveitarfélögum. Það er hins vegar halli á rekstri þessa hundaeftirlits á hverju ári svo það er greinilega ekki að koma nóg inn til að halda uppi því starfi sem þeir framfylgja. Ég held persónulega að gjöldin séu svona há því þá vantar peninga – og fólk skráir ekki hundana af því að gjöldin eru svo há,“ segir Guðfinna. Hún segir að áætlað sé að helmingur hunda á Reykjavíkursvæðinu sé skráður. Sjálf telji hún fleiri óskráða. Tími er kominn á úrbætur, að mati Guðfinnu. „Það er almenn óánægja með þetta gjald. Það er kominn tímiá hagræðingu og endurskoðun á kerfinu. Það er úrelt. Fyrsta mál á dagskrá ætti að vera að taka upp rafræna skráningu. Það myndi minnka skjalavinnslu. Mörgum finnst sérstakt að gjaldið sé svo hátt hér, annars staðar á Norðurlöndunum er ýmist lágt árgjald eða jafnvel bara skráningargjald.“
Gjaldskrá tekur mið af kostnaði
En í hvað fara þessir peningar? „Í hundaleyfisgjöldunum er allur umsýslukostaður og þessi venjulegi rekstrarkostnaður, laun, húsnæði, rekstur bíla og fleira sem hundeigendum ber að standa undir auk kostnaðar við geymslu handsamaðra hunda, tryggingar vegna tjóns gegn þriðja aðila, prentun á skiltum og merkjum, dýralæknaþjónusta og fleira,“ segir Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem heldur utan um hundahald í Reykjavík. Hún segir að gjaldskráin taki mið af „raunkostnaði“ við rekstur hundaeftirlitsins miðað við fjölda skráðra hunda. Þeir eru 2.600 talsins en þar af fær um helmingur hundeigenda 50% afslátt af árgjaldi vegna þess að þeir ásamt hundum sínum hafa farið á viðurkennt námskeið.
Morgunblaðið 5. febrúar/Höskuldur Daði Magnússon