Kynning: Kjartan Antonsson

Hæ öll

 

Ég heiti Kjartan Antonsson og hef ég tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram til aðalstjórnar í félaginu okkar HRFI og til vara í varastjórn.

 

5KA

Ég hef verið félagi HRFI óslitið frá árinu 1999 en þá eignaðist ég minn fyrsta ættbókfærða hund sem var af tegundinni Snögghærður Vorsteh. Það var tík sem hét í ættbók Gæfu Dögg en við skýrðum hana Zeldu eftir vinsælum tölvuleik sem synir mínir voru þá mikið að spila.

 

Mér fannst á þeim tíma bara eðlilegt að vera skráður í félagið þar sem ég átti hreinræktaðan hund. Þar fyrir utan hafði ég ekki mikla skoðun á því sem fram fór innan félagsins. Ég mætti á sýningar og veiðipróf án þess að hugsa eitthvað meira um starf félagsins. Tók því bara sem sjálfsögðum hlut að geta mætt á þessa viðburði sem hentuðu mér. Fljótlega áttaði ég mig þó á því að það var langt í frá sjálfsagt.

1 KA

Síðan þá hef ég átt 6. Vorsteh hunda, þar af þrjá innflutta. Einn af þeim náði þeim góða árangri árið 2005 að verða í 2.sæti yfir stigahæstu hunda HRFI það árið. Hann varð einnig fyrsti karlhundurinn í grúppu 7. til þess að ná þeim áfanga að  verða þrefaldur meistari.

 

Í dag eigum við hjónin tvo hunda, Vorsteh tíkina Haugtun´s Hfe Siw og Ensk Setter tíkina Húsavíkur Fönn. Á þessu ári bætist svo þriðji hundurinn í fjölskylduna en það er innfluttur karlhundur (Vorsteh) sem á pláss í einangrun nú í haust.

 

Eftir því sem árin liðu fór ég ósjálfrátt að setja mig meira og meira inn í starfsemi félagsins. Smá saman fór ég að mynda mér sjálfstæðar skoðanir, bæði um það sem vel er gert og  það sem betur mætti gera.

 

Ég hef á hliðarlínunni unnið eða komið að mörgum málum undanfarin ár sem tengjast félaginu okkar.

 

Ég var meðal annars einn af stofnendum tveggja deilda innan félagsins. Vorstehdeildar árið 2008 og var í framvarðarsveit við stofnun deildar Enska Setans í fyrra 2016.

 

Ég sat í stjórn Vorstehdeildar í einhver ár og gengdi þar meðal annars formennsku.

 

Báðar þessar deildir eru með öflugt og blómlegt starf í dag þar sem hlúð er vel að ræktunarmarkmiðum tegundanna þar sem allir geta verið með.

 

Ég hef eingöngu átt hunda í grúppu 7. en eftir að hafa komið að stofnun tveggja deilda veit ég af eigin reynslu hversu mikilvægar og nauðsynlegar allar deildir eru. Þá skiptir ekki máli fyrir hvaða tegund viðkomandi deild stendur fyrir. Allar eru þær jafn nauðsynlegar fyrir sína tegund og í raun og veru eru þær undirstöður félagsins.

 

Þó ég hafi eingöngu átt hunda sem tilheyra grúppu 7. er ég ekki að bjóða mig fram í stjórn sérstaklega til að beita mér fyrir þær tegundir. Ég býð mig fram fyrir alla félagsmenn þar sem ég tel að víða sé hægt að  bæta starf félagsins fyrir hundana okkar og ekki síst eigendur þeirra. HRFI er til fyrir okkur og vegna okkar.

 

3KA      4 KA

 

Þetta á að heita kynning á frambjóðendum sem það vissulega er þó hún sé mjög takmörkuð þar sem fáir nenna að lesa heilu ritgerðirnar um eigið ágæti þess sem skrifar. Þegar  öllu er á botninn hvolft er ég bara manneskja eins og þú sem þetta lest með mína kosti og galla. Ég hef gert mistök og á örugglega eftir að gera fleiri mistök. Ég hef þó yfirleitt borið gæfu til að viðurkenna og læra af mistökum svo þau endurtaki sig ekki.

 

Það er oft erfiðara að tala um eigin kosti en galla. En ég hef heyrt að ég sé réttlátur og reyni að horfa á málin ofanfrá óháð því hvað aðrir segja um mína skoðun og er ég ekki frá því að það sé rétt. Ég er með mjög sterka réttlætiskennd og á rosalega erfitt með að gera ekki neitt þegar ég eða aðrir eru beittir óréttlæti. Stundum hef ég þurft að líða fyrir skoðanir mínar en yfirleitt fengið uppreisn æru þegar á líður og málin skýrast.

 

Ég get verið ákveðinn og er klárlega fylginn mér en sé mér sýnt fram á með góðum rökum að ég fari villu vegar þakka ég viðkomandi fyrir og skipti um skoðun.

 

Núna eru óvenju margir í framboði til stjórnar HRFI eða 7. manns. Þar af eru tveir núverandi stjórnarmenn og þá 5 ný nöfn.

 

Ég væri ekki að bjóða mig fram til stjórnar ef mér þætti allt vera í stakasta lagi og ekki þörf á að breyta neinu né bæta. Það á örugglega við um okkur öll og er því ekki hægt að lesa annað út úr fjölda frambjóðenda en að félagsmenn vilji breytingar.

 

Hverju ætla ég að beita mér fyrir nái ég kjöri?

 

Ég mun beita mér fyrir því að félagið verði opið og gagnsætt en það er loforð sem við gjarnan heyrum fyrir hvern aðalfund. Einhverrahluta vegna virðist það hafa verið erfiðara í framkvæmd en á blaði hverju sem um er að kenna?

 

Hvernig ætla ég þá að fara að því að standa við það loforð. Jú nái ég kjöri mun ég alltaf og þá meina ég alltaf gera grein fyrir atkvæði mínu opinberlega þurfi stjórn að kjósa um ákveðin málefni. Einnig mun ég greina frá afstöðu minni í þeim málum sem ekki eru útkljáð með kosningum telji ég vægi þeirra mála það mikilvægt.

 

Þetta mun ég gera á facebook síðu sem ég opna fljótlega sem sjá má hér þegar þar að kemur. https://www.facebook.com/groups/1523132284387547

 

Þar mun ég einnig svara öllum félagsmönnum sem þurfa af einhverjum sökum að hafa samband við stjórnarmann HRFI eða koma skoðununum sínum á framfæri. Það verður opin síða sem allir geta séð og lesið, spurt spurninga eða fylgst með því sem er að gerast hverju sinni innan félagsins.

 

Einnig mun ég beita mér fyrir því að fundargerðir félagsins verði skýrar og við fáum að vita hvað virkilega er verið að tala um. Ég mun beita mér fyrir því að tölvupóstar sem berast stjórn og eru teknir fyrir á stjórnafundum verði birtir í viðkomandi fundargerð í heild sinni. Í dag sjáum við oft bara svar stjórnar HRFI við ákveðnum tölvupóstum en ekki fyrirspurnina né erindi viðkomandi félagsmanns. Með öðrum orðum þurfum við oft að geta okkur til um hverju er verið að svara.

 

Ég mun beita mér fyrir því að stjórn félagsins sýni öllum félagsmönnum virðingu og að við séum öll í félaginu á jafnréttis grundvelli, við erum jú öll í sama liðinu.

 

Ég hef líka þá skoðun að enduskoða eigi skilyrði til stofnunar ræktunardeilda og þá með því tilliti að auðvelda stofnun deilda í stað þess að gera það nánast ómögulegt.

 

Hérna er ég aðeins að stikla á stóru og auðvitað á margt eftir að koma upp á sem taka þarf afstöðu til í fyllingu tímans. En  ég heiti því að vinna fyrir allar hundategundir og alla meðlimi HRFI.

 

Get ekki sleppt því að minnast á eiginkonu mína Eydísi Grétu í þessari kynningu minni. Þar á ég sterkan hauk í horni sem styður mig og í raun og veru hvatti mig til að bjóða mig fram til stjórnar. Hún hefur fullan skilning á umfanginu og hversu mikill tími og vinna það er að vera í stjórn HRFI nái ég kjöri. Væri það ekki svo þá væri ég ekki að bjóða mig fram til stjórnar HRFI en það er algjör forsenda þess að ég býð mig fram ásamt einskærum áhuga á því að gera gott  félag betra.

 

Að lokum bið ég um stuðning þinn á næsta aðalfundi HRFI þar sem kosið verður í stjórn HRFI. Ég yrði virkilega þakklátur en veit um leið og hef skilning á því að það er ekki sjálfgefið að ná kjöri. Hvað þá þegar svo margir frambærilegir aðilar hafa boðið fram krafta sína.

 

Það er ekki svo að ég viti allt um starfsemi HRFI og hvernig hún virki í smáatriðum. En ef ég næ kjöri mun ég verða fljótur að koma mér inn í hlutina með dyggri aðstoð annara stjórnarmanna.

 

En endilega fylgstu með á facebook síðunni þar verður enginn blokkaður og allir velkomnir.

2KA

Kær kveðja

Kjartan Antonsson