Áfram rætt um gæludýr
mbl 26. okt 2016
• Astma- og ofnæmisfélag Íslands leggst gegn því að gæludýr fá að fara í strætó • Breyta þyrfti gamalli reglugerð
Ekki er fengin niðurstaða um það hvort farþegum Strætó bs. verður heimilt að ferðast með gæludýr sín í vögnum fyrirtækisins.
Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, sagði í samtali við Morgunblaðið, að umsagnir sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem eiga hlut í Strætó, um þetta tiltekna mál hefðu verið jákvæðar. Ekkert sveitarfélaganna hafi sett sig upp á móti slíkri heimild og umsagnir heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna sem eiga Strætó hefðu einnig verið jákvæðar og almennt hefði verið vilji til þess að gera a.m.k. tilraun til að heimila veru gæludýra í strætisvögnum.
„Það er gömul reglugerð um heilbrigði og hollustuhætti, sem bannar flutning gæludýra í hópferðabílum og við ætlum að heyra í umhverfisráðuneytinu, hvort til greina komi að breyta þessari reglugerð, þannig að slíkur flutningur yrði heimilaður. Ef það stendur vilji til slíks, þá hefur öllum lagatæknilegum atriðum verið rutt úr vegi og verður hægt að taka ákvörðun,“ sagði Jóhannes.
Jóhannes segir að ef ekki reynist vilji til þess að breyta reglugerðinni, sé málið þar með dautt.
Jóhannes sagði jafnframt að ef af yrði, þá myndi fyrsta skrefið vera að hefja þetta sem tilraunaverkefni og síðan myndu stjórn Strætó bs. og sveitarfélögin meta það eftir tiltekinn tíma hvernig reynslan af verkefninu hefði verið og taka þá ákvörðun um framhaldið.
Andvígt því að leyfa gæludýr
Astma- og ofnæmisfélag Íslands lýsir sig andvígt því að gæludýr séu leyfð í strætó. Í yfirlýsingu frá vinnhóp félagsins segir m.a.: „Með því að leyfa gæludýr í almenningsvögnum er verið að ganga á réttindi eins hóps til að koma til móts við annan hóp. Einnig veltum við því fyrir okkur hversu mikil óþægindi er hægt að leggja á einn hóp sem áætlað er að sé um 7-8% af íbúum eða um 9.100 – 9.800 manns, til að auka þægindi annars hóps. Strætó er opinbert fyrirtæki rekið af opinberu fé og á því að þjónusta alla og fyrst og fremst manneskjuna og þarfir hennar.“