Jórunn Sörensen:
Bókin „Hugsaðu um hundinn þinn“ sem kom út á síðasta ári fjallar um það hvernig hundaeigendi getur eignast og átt, eða eins og sagt er framan á kápu bókarinnar: „Heilbrigðan og hamingjusaman hund“.
Á frummálinu heitir bókin „Complete Dog Care“ og kom út í Bretlandi 2013. Fimm manns eru tilgreindir sem ritstjórar bókarinnar en ekki er getið um höfunda efnis eða hvort þeir eru dýralæknar og/eða hundaþjálfarar. Ísak Harðarson þýddi bókina. Ráðgjöf og faglegur yfirlestur var í höndum Helgu Finnsdóttur dýralæknis.
Í heild er bókin 192 síður og þar af fjallar helmingur hennar um sjúkdóma og slys. Í bókinni eru rúmlega 180 myndir og margar þeirra stórar – taka yfir heila síðu eða opnu. Það gefur því auga leið að ekki er mikið pláss eftir fyrir ítarlegan texta, enda er hann að mestu mjög knappur. Efni bókarinnar virðist vera samsafn af upplýsingum sem fengnar hafa verið úr ýmsum áttum og stangast jafnvel á. Dæmi: Annars vegar er rætt um að kynna börnum hinar ýmsu hundategundur, þegar ákveðið hefur verið að bæta hundi við fjölskylduna, til þess að vita hvaða tegund þeim lýst best á. Hins vegar er lögð áhersla á að foreldrar hafi ákveðið fyrirfram hvaða tegund skuli valin. Einnig er á einum stað varað við því að hvolpi sé strítt en á öðrum stað er það ráðlagt.
Margt annað vekur spurningar um vönduð vinnubrögð við gerð bókarinnar svo sem ýmsar staðhæfingar. Hér verður stiklað á stóru:
- Staðhæfingur um hve „auðvelt“, „mjög auðvelt“ eða „ekki auðvelt“ er að þjálfa hinar ýmsu tegundir kemur undarlega fyrir sjónir.
- Í kaflanum: „Að koma heim með hundinn“ eru ráðleggingar sem ganga þvert á þarfir hvolps sem er að yfirgefa móður sína og systkini.
- Það er óþarfi að „hrósa hvolpi upp í hástert“ þegar hann gerir þarfir sínar úti. Það er jafn notaleg tilfinning fyrir hund að losna við þvag og hægðir eins og okkur mannfólkið. Það hefði jafnframt verið sjálfsagt að geta þess að hvolpur getur ekki stjórnað þvaglátum sínum fyrr en hann hefur náð fjögurra mánaða aldri.
- Í bókinni er lögð mikil áhersla á að sápuþvo hundinn og vekur það furðu þar sem það er langt frá því nauðsynlegt því eðlilegur feldur hunda hrindir frá sér óhreinindum.
- Bent er á orðin „sittu“ og „kyrr“ sem skipunarorð en hundaeiganda ekki sagt að hann geti, að sjálfsögðu, valið sér þau orð sem honum eru töm. Ekkert er rætt um hvenær heppilegt er að byrja þjálfun.
- Réttilega er hundaeigendum bent á að það sé gott að fara í hundaskóla en fullyrðingin: „Hundar eru ólíkir og hafa gott af ólíkum aðferðum.“ vekur margar spurningar. Við hvað er átt?
- Í kaflanum: „Hegðunarvandamál“ er fullyrt að hundar hafi „eyðileggingarhvöt“. Það er ekki rétt. Hundar hafa enga „eyðileggingarhvöt“. Hundar hafa hins vegar þörf á að hafa eitthvað fyrir stafni. Hafa verkefni.
Eins og fyrr er nefnt fjallar helmingur bókarinnar um sjúkdóma og slys. Sá hluti verður ekki ræddur hér enda fór dýralæknir yfir þann kafla. Það er þó slæmt að nöfn sjúkdóma sem upp geta komið sé ekki einnig getið á ensku svo eigandi geti gúgglað nafn hans ef hann hefur grun um að þessi eða hinn sjúkdómurinn hrjái hundinn hans.
Þetta er falleg bók með miklum fjölda dásamlegra mynda af hundum – fullorðnum jafnt sem hvolpum. Og sem slík er bókin mjög söluvænleg. Innihaldið er ekki eins pottþétt og myndirnar og er það miður þar sem ekki er um auðugan garð að gresja á íslensku um meðferð hunda og hundauppeldi.