Rjómi af bannaðri tegund og má ekki koma

Af fréttasíðu RUV:
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun Matvælastofnun og íslenska ríkið af kröfu um að leyfi fáist fyrir því að flytja hundinn Rjóma til landsins. Eigendur Rjóma eru íslensk fjölskylda sem búsett hefur verið í Noregi undanfarin ár en hugðist flytjast búferlum til Íslands.
Rjómi er af tegundinni English Bull Terrier, sem hefur verið bönnuð hér á landi frá árinu 2004. Umsókn um innflutning hans var hafnað með tilvísun í að forfeður tegundarinnar hafi verið notaðir í bjarna-og nautaat og seinna hundaat. Fjölskyldufaðirinn andmælti höfnuninni og sagði að hundurinn tengdist sér og fjölskyldunni tilfinningaböndum sem „jafna megi við hefðbundin fjölskyldutengsl”.

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars að Matvælastofnun sé með lögum falið að veita leyfi til innflutnings dýra. Dómurinn geti hvorki veitt slíkt leyfi né gefið stofnuninni bein fyrirmæli um slíkt. Þá hafi ekki verið brotið gegn jafnræðisreglunni, þar sem ekki hafði verið sýnt fram að hundur af sömu tegund hafi verið fluttur inn til landsins eftir að innflutningur á tegundinni var bannaður árið 2004.

http://ruv.is/frett/rjomi-af-bannadri-tegund-og-ma-ekki-koma 

ruv:  Ásrún Brynja Ingarsdóttir