visir.is/Sunna Karen Sigurþórsdóttir:
Hunda- og kattaeigendur beðnir um að leita á dýrum sínum.
Skógarmítill fannst í síðustu viku á eyrinni á Ísafirði. Mítillinn var fullþroskuð kerling og var hún föst á hálsinum á ketti. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem skógarmítill finnst á Vestfjörðum, en hann er fágætur ennþá, að því er segir á vef Náttúrustofu Vestfjarða.
Ungviðið er um einn millimetri á lengd og heldur sig í gróðri, en þegar því vantar blóð krækir það sig við blóðgjafa. Lífshættir skógarmítils á Íslandi eru ókannaðir en flestir hafa fundist á mönnum.
Skógarmítill er varasamur því hann getur borið alvarlega sýkla í fórnarlömb sín, til dæmis bakteríuna Borrelia burgdorferi, sem getur valdið alvarlegum skaða á taugakerfi.
Náttúrustofa Vestfjarða mælir með að eigendur katta og hunda leiti á dýrum sínum eftir mítlum og ef hann finnst þá er fólk beðið um að koma með hann til Náttúrustofunnar.
Þá er minnt á mikilvægi þess að fara að öllu með gát þegar mítillinn er fjarlægður, en það er best gert með því að klemma pinsettuodda um munnhluta mítilsins og lyfta honum beint upp frá húðinni. Forðast skal að snúa honum í sárinu.
sjá greinina:
Mynd: Náttúrufræðistofnun/ Erling Ólafsson
sjá grein um skógarmítil; http://www.ni.is/poddur/nattura/poddur/nr/1009