Færst hefur í vöxt að viðskiptavinir Icelandair ferðist með hunda sem veita þeim andlegan stuðning. Aðallega er um bandaríska ríkisborgara að ræða og gilda sérstakar reglur um ferð viðskiptavinarins. Þarf hann meðal annars að skila vottorði og dvelja á afmörkuðu svæði í flugstöðinni á meðan hann bíður eftir tengiflugi sínu.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir aðspurður að um sé að ræða tvö til þrjú tilfelli á mánuði og starfsfólkið orðið vart við að þessum tilfellum fari fjölgandi.
Segir hann einnig að gerðar séu ráðstafanir ef aðrir farþegar geta af einhverjum ástæðum ekki hugsað sér að hafa hundinn nálægt sér. Þá séu gerðar ráðstafanir til að mæta þörfum fólksins og hafa farþegar meðal annars verið færðir til í vélum flugfélagsins.
Hundur sem veitir andlegan stuðning fylgir meðal annars einstaklingum sem glíma við andleg veikindi og/eða geðsjúkdóma.
sjá alla greinina: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/23/fleiri_njota_studnings_hunds_i_flugi/