Þegar Sigga Vala sendi okkur greinina Scully og ég lofaði hún annari grein fljótlega. Nú er hún komin með hvolp og ætlar að leyfa okkur að fylgjast með hvernig gengur:
http://hundalifspostur.is/2015/05/13/scully-og-eg/
Ég biðst afsökunar á þessari löngu þögn sem stafar af því að við Sindri höfum verið önnum kafin í sumar. Við heimsóttum fjölskyldu mína í Washington D.C. og ég fór í sumarskóla í Boulder, Colorado. Þegar skólanum lauk flaug ég svo til Íslands. Flugið á milli Ameríku og Íslands er versta flugið —það er flug hinna rauðu augna þegar lent er á Íslandi um klukkan sex að morgni. Þann 22. júlí hafði ég átt svefnlaust flug, rauðeyg og þreytt en það birti heldur betur yfir deginum þegar Sindri tók á móti mér á vellinum með nýja hvolpinn okkar hana, Ivo, í fanginu.
Frá því Ivo kom inn í líf okkar hefur lífið verið fullt af hlátri og ást (og frísku lofti eftir alla göngutúrana). Ivo er dásamlegur þrílitur (blue merle tricolor) border collie. Annað augað á henni er hálft blátt og hálft grænt en hitt er blátt. Dóra, ræktandinn, gaf Ivo og systkinum hennar frábært uppeldi áður en hún afhenti þau nýju eigendunum. Ivo var orðin húshrein þegar við fengum hana og þurfti bara að læra á nýja umhverfið sitt. Það tók þrjá daga að hún hætti að pissa inni í íbúðinni okkar. Hún skemmdi heldur ekki neitt. Ég þurfti bara að segja með rödd og tákna „nei“ og hún hætti að naga. Við Sindri eru mjög ánægð!
Það sem ég hef lært eftir að ég fékk Ivo er að engir tveir hundar eru eins. Ég bjóst til dæmis við því að hún yrði lík fyrsta hundinum mínum, Scully. En svo var ekki Ivo er miklu auðveldari í þjálfun heldur en Scully. Ólíkt Scully er Ivo varkár og feimin. Hún er óörugg áður en hún fer út í göngu í hverfinu okkar. Stundum eru hundar, kettir, fólki, bílar, hávaði og lykt sem mætir okkur bara of mikið fyrir hana. Scully togaði alltaf í tauminn og dró mig áfram á meðan Ivo togar mig aftur á bak. Scully heilsaði ókunnugum, dillaði rófunni og vildi tengjast öllum. Ivo á hinn bóginn situr fyrir aftan mig og vill að ég losi sig út úr þessum erfiðu aðstæðum. Það hefur verið mögnuð upplifun og lærdómur að kynnast Ivo og læra að skilja hana
Að sjá hvað Ivo kallar fram í Sindra hefur sömuleiðis verið skrítið og dásamlegt. Venjulega er ég sú sem er ábyrg í okkar sambandi en þegar kemur að Ivo verður Sindri að hinum ábyrga föður. Sindri fer á fætur tvisvar á nóttu til að fara með Ivo út í bakgarðinn okkar svo hún geti losað sig. Ég hef meira að segja einu sinni náð Sindra og Ivo að pissa saman í garðinum! Hann skammar mig ef skálarnar hennar eru tómar. Hann spyr hvenær ég gaf henni síðast að borða, fór með hana út að ganga og svo framvegis. Hann vill vita allt sem viðkemur Ivo.
Ivo skynjar umhyggju hans og elskar hann á móti. Ég verð að viðurkenna að ég finn stundum fyrir afbrýðisemi þegar ég sé hana kjassa og knúsa Sindra. En á sama tíma bráðna ég innra með mér og finn hlýja strauma við að sjá Ivo og Sindra saman.
Nú er Ivo orðin fjögurra mánaða og kann 10 æfingar eins og að setjast, liggja, heilsa og standa upp. Nýlega byrjuðum við að æfa hana í að snerta fótlegginn á okkur með trýninu við skipun. Við stefnum svo að því að þjálfa hana í að snerta fótlegginn á okkur alltaf þegar hún heyrir hávaða sem við þurfum að vita um eins og dyrabjölluna. Við höfum hitt Völu Stefánsdóttur og snáserana hennar tvo og Gunnhildi Jakobsdóttur með flattann sinn og æft hundana okkar saman. Þær hafa hjálpað okkur mikið með góðum ráðum. Auður Björnsdóttir hundaþjálfari hefur líka skoðað Ivo fyrir okkur og metið hvort hún geti orðið hjálparhundur. Það var mikill léttir að tala við Auði því hún prófaði Ivo með öðrum hundum og það sem við töldum vera óöryggi hennar sagði Auður að væri bara vegna þess að hún væri ung. Ivo var fljót að yfirvinna óttann og stóð sig vel. Hún var á endanum farin að smala hundunum eins og sönnum border collie sæmir. Við stefnum nú á að byrja á hvolpanámskeiði hjá hundaskólanu Hundalíf seinna í mánuðinum.
Okkur Sindra langar að senda sérstakar kveðjur og þakkir til Dóru Ásgeirsdóttur fyrir að vera yndislegur ræktandi sem leyfði okkur að vera í sambandi við sig frá því við sáum mömmu Ivo í fyrsta skipti. Þegar við vorum í Ameríku sendi Dóra okkur myndir og vídeó af Ivo og systkinum hennar. Ég verð að hrósa henn fyrir það hvernig hún útbjó frábær svæði fyrir hvolpana að leika sér í. Skoðið þetta myndband (https://www.youtube.com/watch?v=cz4mB-VVnjw ) og sjáið hvað hvolparnir voru hamingjusamir. Það er ekkert skrítið að Ivo sé svona góð að klifra. Nú er Dóra búin að finna heimili fyrir alla hvolpana en samt sem áður heldur hún áfram að miðla til okkar ráðum (mjög góðum) og upplýsingum í gegnum facebooksíðu sem hún bjó til fyrir okkur nýju eigendurnar. Þakka þér fyrir það Dóra!
Fylgstu með blogginu hér því bráðlega mun ég segja frá frekari framförum Ivo.