Ella, Fanney, Gunnhildur og Sandra:
Í júní ár hvert fer fram veiðipróf Retriverdeildarinnar í Eyjafirði. Áhugi fyrir veiðiþjálfun og prófum hefur aukist jafnt og þétt hér á landi og var Norðurland engin undantekning þar á enda frábært sport. Haustið 2010 var fenginn þjálfari að sunnan til að halda retrievernámskeið og í kjölfarið kom upp hugmynd að hægt væri að halda veiðipróf hér enda margir góðir staðir í firðinum. Vel var tekið í þá tillögu og í júní 2011 varð sú hugmynd að veruleika.
Eitt af prófsvæðunum á Melgerðismelum
Skráning fór vel af stað og fljótlega var orðið fullt í prófið. Nú voru góð ráð dýr, tekist hafði að fá próf haldið „lengst“ úti á landi og margir tilbúnir að leggja þetta langa ferðalag á sig. Við retrieverstelpurnar að norðan urðum æði spenntar og tókum að okkur stjórn og skipulag gestgjafahlutverksins. Nú skyldi sko öllu tjaldað til og haldin veisla og mökum og vinum voru útdeild verkefni! Þar sem við teljum okkur nú vel veislufærar þá var nú ekki flókið að setja línurnar. Vel skyldi veitt af mat og drykk. Herjað var á fyrirtæki á Norðurlandi sem sáu sér ekki aðra leið færa en að verða að beiðni okkar um styrk í formi peninga, matar og drykkja. Líkt og á góðu sveitaheimili hljómaði matseðill helgarinnar: holugrillað lambalæri og meðlæti ásamt súkkulaðiköku og rjóma. Sagt er að fátt sé nokkuð betra en íslenska lambakjötið og voru gestir ánægðir með veisluna og þar með var þessari skemmtilegu hefð komið á.
En já aftur að tilganginum með þessu öllu saman. Prófinu sjálfu á því hvort þessir hundar okkar af veiðitegund hafi það eðli sem þeir voru ræktaðir fyrir, að sækja skotinn fugl. Á Melgerðismelum koma saman konur og menn hvaðanæva af landinu ýmist til að taka þátt í prófi eða til að horfa á og aðstoða. Þeir sem taka þátt í prófi hafa stundað stífar æfingar og leggja allt undir þessa tvo daga. Allt getur gerst á prófdegi og stundum gengur vel en stundum ekki svo vel en alltaf er gaman, að minnsta kosti hjá áhorfendunum. Áhorfendur hafa verið heppnir með veður á melunum öll þessi ár (svo fremur að þeir muni eftir sólarvörninni) og hefur ávallt myndast góð stemmning í áhorfendabrekkunum. Þar koma saman helstu sérfræðingar landsins í hundahaldi og greina það sem fram fer í rauntíma og gefa þar fótboltaspekingum ekkert eftir. Allir eru boðnir og búnir til að taka að sér aðstoðarþjálfarahlutverkin. Að loknu prófi hjá hverjum þátttakenda hafa sumir dómarar nálgast áhorfendur til að gefa hundi umsögn í heyrandi hljóði og hefur það ávallt vakið mikla lukku, eða a.m.k. hjá áhorfendum. Þegar dómari talar er hlustað af kurteisi, þátttakendur taka hatt sinn ofan ef svo ber við og að lokinni umsögn klappa áhorfendur ýmist til að samgleðjast eða hughreysta.
Til að hægt sé að halda próf þurfa margar hendur að hjálpast að og virðist retrieverdeildin uppfull af fólki sem setur það ekki fyrir sig að fylla vasa sína af dauðum máv, vaða þannig hlaðinn yfir straumharða á til að koma sér fyrir einir út í einhverjum hólma og bíða þar uns dómari gefur merki. Þá standa þeir upp og kasta bráðinni á fyrirfram ákveðin stað og bíða svo eftir næstu skipun. Upp í brekku sitja áhorfendur og fylgjast með stjórnendum stýra hundunum sínum að bráðinni af sinni alkunnu snilld. Eftir langan dag skolar fólk af sér sólarvörnina, fiðrið, svitann og hundaslefið og koma svo saman í samkomuhúsinu til að næra sig, kryfja daginn, gleðjast eða gráta, allt eftir uppskeru dagsins. Yfirleitt teygist vel úr borðhaldi en að lokum hefur einhver vitið fyrir sér og öðrum og farið er til rekkju, enda ræs eldsnemma næsta morgun hjá þátttakendum og aðstoðarfólki. Vestin eru fyllt af mávum, byssur hlaðnar og fyrsti hundur mætir á pól.
Helginni lýkur svo formlega á sunnudeginum að loknu prófi upp í félagsheimili. Þá lýkur gestgjafahlutverki okkar með því að á borð eru bornar skúffukökur og rjómi í lítratali sem rennt er niður með nýmjólk eða kaffi á meðan beðið er eftir stóradóm og prófslitum.
Ella, Fanney og Gunnhildur á myndina vantar Söndru (hún hefur etv verið að þeyta rjómann)
Við stelpurnar þökkum öllum félögum okkar fyrir enn eina frábæra helgina á Melgerðismelum. Sjáumst að ári!