Þórhildur Bjartmarz
Hundalífspósturinn sendi fyrirspurn til stjórnar HRFÍ varðandi hundategundir sem eiga Tíbet sem upprunaland. Óskað var eftir upplýsingum varðandi samþykki FCI á breytingum á upprunalandi Tíbet tegundanna:
Er það réttur skilningur að Tíbet hundar verða hér eftir sagðir frá Kína? Hver er afstaða stjórnar HRFÍ til málsins?
Var málið borið undir atkvæði á fundi þar sem fulltrúi HRFÍ sat og þá hvernig kaus þá fulltrúinn f.h. stjórnar HRFÍ og annara félagsmanna?
Ef félagið er ekki sammála breytingunni hefur þá andmælum verið komið á framfæri til FCI? Hvenær komu þessar tillögur upp? Þ.e.a.s. er þetta mál sem hefur verið til umföllunar á fundum FCI undanfarin misseri?
Verða tegundaheitum breytt t.d. á næstu alþjóðlegu sýningu HRFÍ í júlí – undir hvaða tegundaheiti verða tíbet spaniel skráðir?
Herdís Hallmarsdóttir formaður HRFÍ svaraði erindinu f.h. stjórnar
Þessi ákvörðun var tekin á fundi stjórnar FCI í mars og Ísland á ekki fulltrúa í þeirri stjórn – HRFÍ kom því ekki að ákvörðuninni með neinum hætti. Það var hins vegar almennur fundur í júní þar sem HRFÍ átti fulltrúa en þar kom þetta mál ekki á dagskrá né var til umræðu. Fulltrúum HRFÍ var því ekki kunnugt um þetta fyrr en fréttatilkynning FCI barst og var hún samdægurs sett á vef HRFÍ.
Stjórn HRFÍ er að skoða málið og á síðasta fundi stjórnar HRFÍ var tekin ákvörðun um að senda fyrirspurn til FCI og óska eftir nánari upplýsingum um rök að baki ákvörðuninni og á hvaða grundvelli hún var tekin. Þetta er vegna þess að í fundargerð fundar þar sem um þetta var fjallað er ekkert fjallað um ákvörðunina – einungis tilgreint að hún hafi verið rædd og einróma samþykkt.
Við í stjórn höfum einnig leitað til NKU systurfélaga okkar og þeir tekið vel í að ræða þetta í þeim hópi. Þetta vita þær deildir sem hafa sent okkur erindi útaf málinu og ríkir almenn sátt um hvernig málið er unnið.
Mér er ekki kunnugt um að nafni þessara hundakynja hafi verið breytt og get ekki ímyndað mér að sýningastjórn komi til með að breyta nafni hundakynjanna á júlí sýningu félagsins.
Vonandi svarar þetta fyrirspurn þinni eða varpar ljósi á hvar málið er statt hjá stjórn.
Hundalífspósturinn þakkar formanni félagsins Herdísi Hallmarsdóttur fyrir skjót og greinagóð svör.