Ég gleymi aldrei deginum þegar við Bjalla fórum saman í bæinn. Það var sumar og sól og hundurinn skondraði við hlið mér sæll og glaður. Við fórum fyrst stóran hring í almenningsgarði þar sem við sáum annað fólk – sumir voru með hund og sumir ekki. Svo skelltum við niður í miðbæ. Bærinn iðaði af lífi. Fólk með börn. Unglingar. Gamalt fólk. Ferðamenn. Sumir voru með hund og sumir ekki. Við gengum eftir strætum og torgum. Litum inn í nokkrar búðir og ég keypti mér fallegan kjól í einni þeirra. Þar kom að ég var orðin lúin og kaffiþyrst og þá fórum við inn á fallegt kaffihús þar sem ég fékk mér latte en Bjalla fékk skál með vatni. Á meðan ég sötraði kaffið lá Bjalla og hvíldi sig við fætur mér. Það var liðið á dag og við röltum heim á leið.
Þetta er ljúf minning í huga mér en einnig sár því Bjalla á heima í borg í Svíþjóð en ég bý á Höfuðborgarsvæði Íslands og þótt ég eigi Spesíu, mömmu Bjöllu, þá getum við tvær, Spesía og ég, ekki átt svona dag saman. Hver er ástæðan? Jú – íslensk yfirvöld banna það. Þau taka sér það vald að ákveða að maður og hundur megi ekki fara inn í verslun og ekki á kaffihús. Skoðun fleiri atriði þar sem íslensk yfrvöld taka sér alræðisvald yfir hundaeiganda með hundinn sinn:
- Bjalla má fara með eigendum sínum í almenningsfarartæki, hvort sem það er strætisvagn, lest eða rúta. Það má Spesía ekki. Af hverju? Jú – íslensk yfirvöld banna það.
- Bjalla má gista á hótelum sem leyfa hunda. Ég get ekki ferðast um landið með Spesíu og gist á hóteli. Af hverju? Jú – íslensk yfirvöld banna það.
- Bjalla er með evrópskt vegabréf og má ferðast um alla Evrópu – nema til Íslands. Af hverju? Jú – íslensk yfirvöld banna að fullbólusettur hundur geti komið í heimsókn til landsins án þess að fara í fjögurra vikna sóttkví.
Af hverju láta hundaeigendur á Íslandi þetta yfir sig ganga? Er ekki kominn tími til að breyta?
Jórunn Sörensen. Ef þú vilt gera athugsemdir við þennan pistil sendu mér þá póst á vorverk@simnet.is