Fjórða sporapróf ársins var haldið í dag fimmtudaginn 13. september. Prófið var sett kl. 17 við afleggjarann að Sólheimakoti. Þá var búið að leggja þrjár sporaslóðir, 1 x 300 metra fyrir spor 1 og 2 x 1000 metra fyrir spor 2.
Í spori 1 var einn þátttakandi Auður Sif Sigurgeirsdóttir með Kolgrímu For Your Eyes Only Hólm (Ian). Þau Auður og Ian byrjuðu vel og leystu verkefnið vel þar til kom að endahlut sem Ian markeraði því miður ekki. Samkvæmt sporareglum HRFÍ hlýtur sá hundur 0 í einkunn. Þau Auður og Ian voru að taka þátt í sporaprófi í fyrsta sinn og var því árangurinn með ágætum þrátt fyrir 0 í lokaeinkunn.
Í spori 2 voru tveir þátttakendur þær Hildur Sif Pálsdóttir með Forynju Ösku og Guðbjörg Guðmundsdóttir með Svartöfða Jon Bon Jovi (Nóra).
Hildur var fyrri í braut. Aska leysti fyrsta hluta prófsins með tilþrifum en hún var innan við eina mínúta að finna sporaslóð úr 15 metra fjarlægð og hlaut fyrir það 20 stig af 20 mögulegum. Í seinni hluta prófsins sem er ca 940 metra átti Aska að markera 5 millihluti en fann 4 sem gefa 8 refsistig. Lokaeinkunn var því 92 stig sem er I. einkunn sem er glæsilegur árangur með tík sem er ekki orðin tveggja ára.
Guðbjörg og Nóri byrjuðu illa. Nóri var ekki upplagður í sporavinnu í dag. Hann fékk 0 í fyrri hluta prófsins og þegar að seinni hluta byrjaði lá slóðin nærri fuglshræi sem Nóra fannst mun merkilegri en sporaslóðin. Guðbjörg ákvað því að hætta við prófið og hlýtur því 0 í einkunn. En þau Nóri mæta örugglega í næsta próf og gera betur.
Prófið var haldið við Nesjavallaveg rétt fyrir ofan Sólheimakot. Veður var hið besta smá gola og u.þ.b. 10 stiga hiti.
Dómari var Þórhildur Bjartmarz
Prófstjóri var Ingibjörg Friðriksdóttir
F.h. Vinnuhundadeildar þakka ég Ingibjörgu og þátttakendum fyrir ágætan dag.