MAST: Skilyrði fyrir opnun einangrunarstöðvar

Skilyrði fyrir opnun einangrunarstöðvar

04.09.2018 Dýraheilbrigði

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hugðust rekstraraðilar nýrrar einangrunarstöðvar fyrir gæludýr að Selási í Rangárvallasýslu, hefja starfsemi þann 3. september sl. en framkvæmdir við stöðina hafa staðið yfir undanfarin misseri.

Þegar fulltrúar Matvælastofnunar komu á staðinn þann 21. ágúst sl. vantaði það mikið upp á frágang einangrunarstöðvarinnar að ekki var tilefni til úttektar. Í ljósi alls þess sem út af stóð á þeim tímapunkti tóku rekstraraðilar þá ákvörðun að fresta opnun stöðvarinnar. Úttekt mun ekki geta farið fram fyrr en byggingarframkvæmdum er lokið og húsnæðið tilbúið fyrir starfsemina.

Rekstrarleyfi einangrunarstöðvarinnar sem veitt er af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er háð því að stöðin uppfylli reglugerð þar að lútandi. Við vinnslu umsagnar Matvælastofnunar sumarið 2017 voru mikil samskipti á milli stofnunarinnar og rekstraraðila m.a. þar sem skorti upplýsingar um byggingu og búnað. Reglugerð um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr kveður á um þær kröfur sem gerðar eru til einangrunarstöðva. Í umsögn Matvælastofnunar er afstaða tekin til umsóknar og framlagðra gagna. Í henni felast ítarlegar leiðbeiningar um skilyrðin sem rekstraraðilum ber að uppfylla.