Skuggi heimsóknarhundur

Jórunn Sörensen:

Á einum fegursta degi vetrarins þegar nýfallin mjöll skreytti bæinn heimsótti ég Brynhildi Bjarnadóttur og hundana hennar Skugga og Emblu. Erindið var að fræðast um „Skugga heimsóknarhund“ en Brynhildur hefur farið vikulega með Skugga sinn í heimsókn á deild fyrir fólk með heilabilun síðan í maí á síðasta ári. Ég byrjaði á að spyrja Brynhildi af hverju hún hefði gerst „hundavinur“ eins og það er kallað. Og nú gef ég Brynhildi orðið:

Ég var búin að hugsa um þetta í mörg ár – alveg frá því að ég fékk hund. Hundarnir mínir gera svo mikið fyrir mig og mitt líf og ég hugsaði oft um hvernig ég gæti látið aðra njóta þess. Þá átti ég reyndar aðeins Emblu en vissi að hún myndi ekki henta. Síðastliðið vor fór ég með Þórhildi Bjartmarz á hjúkrunarheimili þar sem hún ætlaði að kynna íslenska fjárhundinn með því að sýna kynningarmynd og spjalla um hundinn. Þegar við mættum var strax spurt: „Hvað, eruð þið ekki með hund?“ Ég var með hundana mína úti í bíl og Þórhildur sagði mér að ná í Skugga. Ég var aðeins hikandi – Skuggi getur orðið dálítið smeykur við óvænta hluti og hann hafði aldrei séð hjólastóla eða göngugrindur. En ég náði í hann og það gekk afar vel og Skuggi var glaður allan tímann. Og ég þarf ekki að taka það fram að hann gerði mikla lukku hjá íbúum hjúkrunarheimilisins. Í framhaldi af þessari heimsókn fórum við Þórhildur með kynningu á íslenska fjárhundinum á fleiri hjúkrunarheimili og Skuggi var alltaf með.

Á einu hjúkrunarheimilinu sem við Þórhildur vorum með kynningu kom iðjuþjálfi að máli við mig og spurði hvort við Skuggi gætum ekki komið vikulega. Ég svaraði því til að ég væri á námskeiði fyrir heimsóknarvini en því væri ekki lokið en benti henni á að tala við Aðalheiði Jónsdóttur hjá Rauða krossinum í Kópavogi en sú deild sér um „Hundavini“ þ.e. hunda sem fara í heimsóknir á hjúkrunarheimili, heim til fólks eða á aðra staði þar sem óskað er eftir hundi í heimsókn.

Námskeiðið var tvö skipti. Hið fyrra var í húsnæði Rauða krossins Kópavogi var fyrir heimsóknarvini með hund. Hitt var haldið í húsnæði Rauða krossins við Efstaleiti og var kynning á starfi Rauða krossins og hvað í því felst að vera heimsóknarvinur. Að lokum var hundurinn metinn – hvort hann væri hæfur sem heimsóknarhundur. Það var gert á hjúkrunarheimili þar sem bæði ég og sá sem gerði matið leiddi Skugga upp og niður stiga, inn í lyftu, gegnum dyr með sjálfvirkri opnun, að glugga sem náði niður í gólf o.fl. Einnig var farið með Skugga inn í setustofu en þar sat fólk með heilabilun. Niðurstaða matsins var að Skuggi hentaði síður fólki með heilabilun. Það þótti mér leitt því ég vissi að þar væri þörfin mikil. Það kom hins vegar í ljós að þegar ég mætti til Aðalheiðar til þess að ræða hvar ég ætti að vera spurði hún bara: „Hvenær getur þú byrjað?“ Iðjuþjálfinn sem hafði komið að máli við mig og spurt hvort við Skuggi gætum komið vikulega hafði haft samband við Aðalheiði og pantað Skugga í heimsókn á deild þar sem íbúar eru með heilabilun. Fundur var síðan ákveðinn þar sem við Aðalheiður myndum hitta iðjuþjálfa hjúkrunarheimilisins.

DSC_0375          DSC_0378     (sá sem gerði matið leiddi Skugga upp og niður stiga, inn í lyftu)

Það þekkja margir hundaeigendur norska hundaþjálfarann Line Sandstedt sem kemur hér tvisvar til þrisvar á ári á vegum Hundaskólans Hundalífs og heldur hlýðninámskeið fyrir hunda og eigendur þeirra. Ég var svo lánsöm að vera á námskeiði hjá Line á þessum tíma og hún gaf mér bæði gagnlegar leiðbeiningar og kenndi mér ýmsar æfingar til þess að undirbúa Skugga fyrir vinnuna sem beið hans en meðal námskeiða sem hún heldur bæði í Noregi og víðar eru námskeið fyrir heimsóknarhunda. Það sem Line ráðlagði var meðal annars að ég skyldi setja það skilyrði að ég yrði aldrei ein með hundinn hjá íbúum hjúkrunarheimilisins heldur yrði alltaf starfsmaður með mér. Það gæti alltaf eitthvað komið upp á. Einnig sagði Line mér að gera það ljóst að ef Skuggi væri óupplagður og þreyttur hefði ég leyfi til þess að fara. Jafnframt lagði Line áherslu á að Skuggi ætti ekki að hitta fleiri en sex heimilismenn í einu. Þessar leiðbeiningar Line komu sér afar vel því það kom upp tilvik þar sem illa hefði getað farið ef starfsmaður hefði ekki verið viðstaddur.

 

DSC_0631  (Line gaf mér bæði gagnlegar leiðbeiningar og kenndi mér ýmsar æfingar)

Hér skaut ég inn spurningu hvernig hefði gengið með Skugga sem fékk það mat að henta ekki fólki með heilabilun nú þegar þau voru byrjuð að heimsækja slíka deild. Brynhildur hló og sagði að þótt Skuggi hefði aldrei áður umgengist fólk með heilabilun hefði hann verið fljótur að átta sig á og sýndi öllum einlægan áhuga og þau einstöku elskulegheit sem hundur getur sýnt.

Þá bað ég Brynhildi að lýsa hefðbundnum þriðjudegi.

Ég byrja á því að fara með Skugga í gönguferð í um hálfa klukkustund. Þá hreyfir hann sig og gerir stykkin sín. Svo förum við heim og Skuggi hvílir sig í um það bil tvær klukkustundir. Hann er alltaf mjög spenntur þegar ég byrja að taka til það sem ég tek með – bakpokann með vatnsdalli, teppi og límrúllu til þess að taka hundahár.

 

Skuggi og Brynhildur í Heiðmörk 1. feb 2017 035          Skuggi og Brynhildur í Heiðmörk 1. feb 2017 021 (Brynhildur með Skugga og Emblu)

Þegar við komum á staðinn fer ég með Skugga í smá göngferð þarna í kring áður en við förum inn. Svo förum við inn í andyrið og bíðum eftir iðjuþjálfanum og þá er Skuggi orðinn mjög spenntur eftir því að komast í lyftuna og upp á fjórðu hæð. Þegar þangað er komið gerist annað af tvennu. Annaðhvort bíður uppáhaldsvinur Skugga þar í hjólastólnum sínum eða ef hann er þar ekki byrjum við á að ganga að herberginu hans og sækja hann. Það verður fagnaðarfundur þegar vinirnir hittast og síðan tekur maðurinn tauminn og þeir verða samferða inn á litla setustofu þar sem Skuggi hittir sex einstaklinga.

 

dsc_0244          dsc_0278   (Annaðhvort bíður uppáhaldsvinur Skugga þar í hjólastólnum)

Ég byrja á því að ganga inn í miðja stofuna með Skugga, bjóða góðan daginn. Sama geri ég þegar ég fer þá þakka ég fyrir samveruna og minni á að ég komu aftur næsta þriðjudag. Í byrjun fékk ég ekki mikil viðbrögð en núna fáum við alltaf bros og: „Hæ Skuggi.“ Og: „Bless Skuggi.“

Það er misjafnt hvort fólk kærir sig um Skugga alveg nálægt sér eða ekki. Reyndar vilja það flestir þótt það taki lengri tíma fyrir einn en annan að átta sig á því hve gott er að vera í návist hundsins. Hjólatólarnir sem margir heimilismenn sitja í eru mjög háir þannig að Skuggi nær ekki til þeirra. Ég tók þá á það ráð að láta Skugga sitja á stól við hliðina á þeim sem hann er hjá hverju sinni. Einnig er notuð stór pulla sem látin er í fangið á fólki og þá getur Skuggi farið upp í fang á manneskjunni. Það eru ljúfar stundir. Skugga er strokið, hann lygnir aftur augum og sleikir stundum hendur. Eftir um það bil klukkustund er kominn tími til að kveðja og við Skuggi höldum heim.

Eruð þið ekki alveg uppgefin? spyr ég.

Við vorum það fyrst. Ég var mjög þreytt. En maður verður alltaf þreyttur þegar maður byrjar á einhverju nýju. Núna er þetta allt svo afslappað og notalegt. Tóm gleði.

Ég heyri á frásögn þinni að þetta er heilmikil fyrirhöfn, segi ég, þú gengur ekki bara þarna inn og lætur Skugga um verkið.

Nei, langt frá því. Þarna er jú um að ræða aldrað fólk, sumt háaldrað og með mismikla skerðingu. Ég þurfti að læra inn á hvern og einn og hvernig samskipti við Skugga hentuðu hverjum og einum. Því legg á áherslu á að það er nauðsynlegt að hafa áhuga á að vinna á þennan hátt. Að mæta vikulega mánuð eftir mánuð er mikil skuldbinding og það verða þeir sem taka að sér slíkt verkefni að gera sér ljóst. Það gengur ekki að „nenna ekki í dag“. Ég vil líka taka það sérstaklega fram hvað starfsfólkið er elskulegt og tekur vel á móti okkur.

Eftir að hafa setið lengi og hlustað á Brynhildi segja hverja söguna á fætur annarri af samskiptum sínum og Skugga við hvern og einn er mér ljóst hve mikil vinna það er að fara með hund í heimsókn á hjúkrunarheimili en einnig hve gefandi það er og dýrmætt bæði fyrir Brynhildi, Skugga og þá sem þau heimsækja.

http://hundalifspostur.is/2016/11/29/skuggi-er-vinsaell 

http://hundalifspostur.is/2016/05/18/skuggi-i-uttekt-sem-heimsoknarhundur