Vinátta Beggu og Búa

Þórhildur Bjartmarz:

Vináttan á sér ýmsar birtingamyndir. Vinátta þeirra Beggu og Búa hefur varað í rúm 12 ár. Öll þessi ár hafa liðið án átaka, árekstra eða misskilnings. Þannig er sönn vinátta manns og hunds.

 

ymisl-25-agust-2016-024

Ég hef oft hugsað hversu Búi minn sem er border terrier, hefur verið heppinn að eiga sér sinn einkavin utan heimilisins. Búi sem á allt gott skilið þvílíkur höfðingi sem hann er, fór nefnilega stundum í dekurdaga til vinkonu sinnar, hennar Beggu.

Fyrirkomulagið var þannig að þegar ég þurfti að koma Búa fyrir þá fór hann til Beggu eða hún hringdi og fékk Búa lánaðan um óákveðinn tíma. Flest þessi ár bjó Begga á heimili með aldraði móður sinni í Kópavogi og þar var dekrað við Búa þegar hann kom. Hann fékk að velja sér mat úr ísskápnum, kjötbollur, bjúgu eða pyslur, eitthvað sem alla hunda dreymir um.  Hann fékk að kúra í sófanum hjá þeim mæðgum, fékk að sofa uppi í rúmi sem Beggu vinkonu hans þótti alveg sjálfsagt.

Þegar Búi kom heim eftir þessa dásamlegu dekurdaga féll hann samstundis inn í mynstur heimilisins, þar sem hundarnir sofa á gólfinu, fá brúnar harðar kúlur úr poka í kvöldmatinn og almennt lifa því hundalífi sem viðgengst á flestum heimilum þar sem hundarnir eru margir.

Þegar Begga fluttist í blokkaríbúð í Breiðholti fyrir skömmu, hélt ég að Búi gæti ekki farið til hennar lengur. Ég myndi koma henni í vandræði ef ég bæði hana fyrir hundinn. En loksins þegar ég hafði kjark til að spyrja hvort Búi mætti koma í heimsókn var svarið:  „Jú, ég er löngu búin að spyrja nágranna mína og allir voru samþykkir því að ég hafi hund – ekkert ofnæmi í minni blokk.“

Frásögnin um Búa og Beggu fékk því góðan endi. Nágrannar Beggu samþykktu að hún fengi Búa í heimsókn. Fjölmörg dæmi sýna hið gagnstæða eins og mikð hefur verið fjallað hér á Hundalífspóstinum. En viljum við breytingar á reglum um hundahald? Flest tölum við um að þörfin fyrir breytingar sé mikil.  Ég vil vekja athygli á að Félag ábyrgra hundaeigenda blæs til málþings þann 19. nóvember n.k. Vonandi verður hundahald í fjölbýli eitt af málefnum sem fjallað verður um.

ymisl-25-agust-2016-027