Lesið fyrir hund

LESIÐ FYRIR HUND

námskeið á vegum samtakanna: Vigdís – Vinir gæludýra á Íslandi

Jórunn Sörensen:

Sunnudaginn 22. maí sl. mættum við Spói í félagsmiðstöðina Selið á Seltjarnarnesi til þess að taka þátt í námskeiði í tengslum við verkefnið: Lesið fyrir hund. Þetta verkefni er starfrækt af bandarísku samtökunum: Intermountain Thearpy Animals (ITA) og kallast á ensku: Reading Education Assistance Dogs  (R.E.A.D.) Mörg þúsund sjálfboðaliðar starfa við slíkt verkefni viða um heim en það hófst árið 1999. Um námskeiðið sáu: Margrét Sigurðardóttir æskulýðsfulltrúi  og forstöðumaður í félagsmiðstöðinni Selinu, hún er formaður Vigdísar – Vina gæludýra á Íslandi og Brynja Tomer stjórnarmaður í samtökunum og viðurkenndur matsmaður R.E.A.D. verkefnisins.

Á Íslandi hafa samtökin Vigdís tekið verkefnið Lesið fyrir hund, upp á sína arma og stendur fyrir námskeiðum fyrir hundaeigendur sem hafa áhuga á að taka þátt með sínum hundi. Vigdís er aðili að ITA. Markmið samtakanna er að efla læsi barna með því að hvetja þau til yndislesturs. Og eins og segir í kynningu á Facebooksíðu Vigdísar: „Lestrarstund með hundi reynist börnunum vel og ekki síst þeim sem eiga við lestrarörðugleika að stríða.“

Námskeiðið var auglýst frá 11-15. Þegar við Spói mættum á námskeiðið tóku stjórnendur á móti okkur. Áður vorum við búin að fara í góða gönguferð svo Spói fengi tækifæri til þess að gera sín stykki.

Þarna voru mættir með eigendum sínum: Þrír íslenskir fjárhundar, tveir golden retriever, einn shetland sheepdog og einn siberian husky. Hundarnir voru í taumi og sátu/lágu hjá sínum eiganda á meðan á námskeiðinu stóð.

Námskeiðið samanstóð af tveimur fyrirlestrum og úttekt í lokin á því á hvort hundarnir gætu orðið lestrarhundar.

lesið fyrir hund

Kynning og aðferðafræði – hundar og lestur

Margrét Sigurðardóttir formaður Vigdísar og umsjónarmaður verkefnisins, Lesið fyrir, sagði frá upphafi og markmiði þessa metnaðarfulla verkefnis að hjálpa börnum við lestur. Helstu kostir eru:

 • Hundur hjálpar barni að slaka á
 • Hundur gagnrýnir ekki, leiðréttir ekki og hlær ekki þótt upplestur sé ófullkominn
 • Lesið er utan skóla, í hlýlegu umhverfi
 • Sjálfboðaliði er ekki kennari, heldur vinur
 • Lestrarstund með hundi er ánægjuleg tilbreyting frá hefðbundnum kennslustundum

Síðan sagði Margrét frá því hvernig verkefnið hefði hafist og þróast hér á landi. Það var veturinn 2012-2013 sem félagsmiðstöðin Selið í samvinnu við Grunnskóla Seltjarnarness byrjaði með verkefnið. Það felst í því að sjálfboðaliðar mæta vikulega með hunda sem sérstaklega hafa verið valdir til verkefnisins og hitta  börn úr 3. og 4. bekk. Síðan les eitt barn fyrir einn hund. Og það er alltaf sama parið – sami hundur og sama barn. Hver lota tekur þrjá mánuði. Skemmst er frá því að segja að verkefnið hefur gefist mjög vel en það kemur skýrt fram bæði í viðtölum við börnin og tölfræðilegri samantekt.

En það eru ekki aðeins nemendur með lestrarörðugleika sem geta fengið að njóta þess að lesa fyrir hund því annar hluti verkefnisins kallast Yndislestur og  fer fram á bókasöfnum og þar geta öll börn sótt um að fá að lesa fyrir hund.

 

Lesið fyrir hund – Vigdís Vinir gæludýra á Íslandi

Brynja Tomer sagði frá tilurð samtakanna Vigdís Vinir gæludýra á Íslandi sem voru stofnuð 2013 og tengslum þeirra við móðurfélagið ITA. Í fyrirlestrinum lagði hún megináherslu á mikilvægi þessa „heilögu þrenningar“ eins og hún orðaði það: Sjálfboðaliði, hundur og barn. Og hve gífurlega mikilvægt það er að liðsheildin sé í lagi. Að eigandi hunds sé vel undirbúinn og fylgist vel með sínum hundi og kunni að framkvæma verkefnið.

Þær kröfur eru gerðar til sjálfboðaliða að hann hafi:

 • Gott samband við sinn hund
 • Hafi áhuga á samskiptum við börn
 • Áhuga á lestri
 • Finni til samkenndar og ábyrgðar

Einnig þarf hundur að vera í góðu líkamlegu ástandi og hreinn og snyrtilegur þegar hann mætir í verkefnið.

Í lokin lagði Brynja sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði og vil ég sérstaklega benda á að þau gilda alls staðar þar sem hundaeigandi er með sinn hund á almannafæri:

 • Hundur í verkefni á alltaf og undantekningalaust að vera í taumi hjá eiganda (ekki Flexi-taumi)
 • Hundur í verkefni má ekki pissa á mannvirki, bíla eða annarra eigur

 

Á miðjum degi var boðið upp á hádegisverð brauð, álegg og ávexti. Einnig fóru eigendur reglulega út með hundana svo þeir gætu viðrað sig og hvílt sig á inniverunni.

Þegar fræðilega hlutanum var lokið gerði Brynja úttekt á hverjum hundi fyrir sig með það að markmiði að athuga hvort geðslag hundsins sýndi að hann gæti orðið hundur í verkefninu Lesið fyrir barn. Þrjár telpur voru mættar til þess að lesa fyrir hundana.

Ég fylgdist ekki með því hvernig öðrum hundum gekk en þegar kom að Spóa varð hann alveg geysilega glaður – loksins var eitthvað að gerast á þessu námskeiði. Eftir að hafa verið stilltur klukkutímum saman var komið að honum! Enda sýndi hann sínar kátustu hliðar. Fagnaði telpunni sem átti að lesa fyrir hann – eins og hann fagnar öllum börnum og öllu fólk sem hann fær að hitta. Telpan fékk blautan koss og hann velti sér um hrygg og sýndi gleði og vellíðan eins og honum var frekast unnt. Hins vegar hlustaði hann ekkert á söguna sem barnið var að lesa. Hafði ekki hugmynd um að til þess væri ætlast – enda steinsvaf hann undir fyrirlestrunum og leit ekki á glærurnar.

Brynju leist nú ekki of vel á þetta en vildi prófa hann aftur. Seinni tilraunin gekk betur. Spói var aðeins búinn að kveikja á aðstæðum og nú lá nokkuð stilltur þessa stuttu stund sem telpan las í bókinni sinni. Þannig að Spói slapp í gegn sem hundur sem gæti orðið lestrarhundur fengi hann þá þjálfun sem til þarf.

Í lokin er gaman að geta þess hve stilltir og afslappaðir allir hundarnir voru allan daginn. Þrátt fyrir þrjá Íslendinga var ekkert gelt.

Einnig er rétt að benda á að Stöð2 var mætt með þáttastjórnanda og upptökumann og verður fjallað um verkefnið í þáttaröðinni: Besti vinurinn í sumar.