Hundurinn minn

Andri Snær Magnason svarar spurningum Hundalífspóstsins:

 

  1. Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/tegund og aldur?

 

Hundurinn minn heitir Tromma og hún er whippet, Leifturs Tromma nánar tiltekið og hún er þriggja ára í sumar. Gotið var kallað tónlistargotið og þau fengu öll nöfn sem tengjast tónlist: Hljómur, Harpa, Flauta, Bogi, Bassi, Taktur og Fiðla.

 

  1. Af hverju valdir þú þetta kyn?

Vinkona okkar hún María Ellingsen á whippet tík. Ég hafði aldrei séð annað eins dýr, lítur út eins og blanda af hlébarða og kengúru. En María lét vel af sínum hundi, henni Hnetu, skapgóð, geltir lítið, fer lítið úr hárum, tíkin er ekki of lítil og ekki of stór, meðfærileg og indæl að öllu leyti. Þannig að þegar við ákváðum að stækka fjölskylduna og fá okkur hund – þá var þetta sú tegund sem okkur fannst helst koma til greina.

 

  1. Hersu lengi hefur þú átt hund/hunda?

Tromma verður þriggja ára í sumar. Margrét konan mín ólst upp með hund á heimilinu, það var tík sem var hálfur labrador og hálfur skoskur.  Ég vakti einu sinni yfir henni og tók á móti hvolpunum hennar, það var eftirminnileg reynsla að fá að vera hundaljósmóðir. Sjálfur átti ég bara hamstur sem barn og kött í frumbernsku, þannig að mér fannst ég alltaf þurfa að eignast dýr einhverntíma á ævinni.

 

  1. Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?

Tromma er eins og áður sagði ljúf og góður félagi. Hún geltir sjaldan og sækir mikið í að kúra með fjölskyldunni. Hún sefur uppi í rúmi hjá börnunum, hefur opnað fyrir okkur nærumhverfið í göngutúrum og persónulega er ég að kynnast dýri almennilega í fyrsta sinn, sem er ný vídd.

 

  1. Er lífið betra með hundum?

Já, Tromma er góð viðbót við fjölskylduna.

Andri Snær