Jórunn Sörensen:
Nú á vordögum var sagt frá því í hádegisútvarpi Gufunnar að sauðburður væri hafinn í Árneshreppi. Fréttinni fylgdi mikið jarm nýfæddra lamba.
Við hjónin sátum við eldhúsborðið og Spói, hundurinn okkar, lá steinsofandi á ganginum. Jarmið í lömbunum var varla byrjað þegar hundurinn spratt upp og hentist inn í eldhús. Þar horfði hann á okkur til skiptis og á lokaðar dyrnar út í garð. Ákvefðin skein úr hverjum andlitsdrætti og öllum líkamanum. Það var auðséð hvað augun og allur svipurinn sagði: Túnið fullt af lambám og þið hreyfið ykkur ekki! Á ekkert að gera! Ég er tilbúinn!
Spói er íslenskur fjárhundur en hann hefur aldrei séð kind. Hann er fæddur hjá ræktanda á Stór-Reykjavíkursvæðinu og þegar hann fer út á land þá hefur það hingað til verið víðs fjarri stöðum þar sem kindur halda sig. En svona er eðlið sterkt í okkar íslenska hundi. Djúpt í genum hans er fullvissan um að verði hann var við fé skuli hann sannarlega reka það í burtu.