Mátti ekki finna hundinum Neró nýtt heimili

ruv.is:
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis frá því í október á síðasta ári um að ráðstafa hundinum Neró til nýs eiganda. Úrskurðarnefndin telur að heilbrigðiseftirlitð hafi ekki reynt til þrautar að ná sambandi við fyrri eiganda hundsins sem hafi verið sérstaklega brýnt í ljósi þess hversu íþyngjandi ákvörðun eftirlitið hafði tekið.

Neró var handsamaður í lok september á síðasta ári við Digranesveg – hann var laus og ómerktur en með örmerki og var í framhaldinu fluttur í hundageymslu að Leirum í Mosfellsbæ.

Strax næsta dag hafði eigandi hundsins samband við eftirlitið til að forvitnast hvort þeir hefðu fundið Neró.  Þann  3. október sendi hann svo textaskilaboð til eftirlitsins með beiðni um staðfestingu á því að hundurinn væri skráður í Reykjavík þar sem óskráðir hundar fást ekki leystir úr haldi.  Heilbrigðiseftirlitið svaraði tveimur dögum seinna og sagði hundinn óskráðan. Fjórum dögum seinna var Neró ráðstafað á nýtt heimili.

Eigandi hundsins segir í kæru sinni að það hefði komið honum á óvart að hundurinn væri ekki skráður í Reykjavík. Greidd hefðu verið af honum gjöld í fleiri ár.  Hann hefði beðið fyrri eiganda hundsins, stjúpföður sonar síns, um að senda staðfestingu á skráningunni til eftirlitsins. Þegar hann hefði ekkert heyrt frekar frá stjúpföðurnum taldi hann að staðfestingin á skráningunni hefði verið send beint til eftirlitsins.

Við meðferð málsins kom í ljós að  fyrri eigandi Nerós hafði tilkynnt eigandaskiptin til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í apríl 2015 en láðst hafði að endurskrá hundinn. Eftir að gengið var frá allri pappírsvinnu, meðal annars fengið samþykki frá sameiganda fasteignar, óskaði eigandi Neró eftir að fá hundinn aftur.  Því var hafnað. Í úrskurðinum kemur fram að það hafi eigandanum þótt „afar mikið bráðræði og undarlegt að ekki hefði verið reynt að finna ásættanlega lausn í málinu.“

Heilbrigðiseftirlitið segir í vörn sinni að það hafi staðið frammi fyrir tveimur valkostum – að velja Neró nýtt heimili eða aflífa hann.  „Val nefndarinnar á því úrræði að finna hundinum nýjan eiganda hafi fyllilega stuðst við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, enda sé það úrræði að aflífa hundinn augljóslega mun meira íþyngjandi ráðstöfun.“

Heilbrigðiseftirlitið sagðist hafa haft samband við fyrri eiganda Neró. Sá hafi sagt að hundurinn kæmi sér ekki lengur við. Þá hafi heldur ekki náðst í núverandi eiganda Neró og því var þessi ákvörðun tekin – Neró ætti að fá nýtt heimili.

Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála kemst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins hafi verið þeim annmörkum háð að ógilda verði hana. Eftirlitið hafi aðeins einu sinni hringt í eigandann en ekki sent nein textaskilaboð né reynt að hafa samband aftur: „Sér þess hvergi stað í gögnum málsins að ráðstöfun hundsins hafi verið svo aðkallandi að ekki væri ráðrúm til að gæta andmælaréttar kæranda með því að reyna til þrautar að ná sambandi við hann til að gefa honum færi á að tjá sig um þær aðgerðir sem voru yfirvofandi,“ segir úrskurðarnefndin.