HUNDURINN MINN

Felix Valsson sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala háskólasjúkrahúsi svarar spurningum Hundalífspóstsins um hunda fjölskyldunnar.

Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/teg og aldur? Af hverju valdir þú þetta kyn? Hersu lengi hefur þú átt hund/hunda? Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins? Er lífið betra með hundum?

Fengum fyrsta hundinn 1998 (við fluttum heim frá Svíþjóð 1997), þetta var ferlegur prakkari (eini rakkinn sem við höfum átt). Var blendingur milli golden retriever og setter, dó fyrir aldur fram af einhverjum lifrarsjúkdómi. Þá fengum við okkur yndislega tík hreinræktaða golden frá Sigríði Bíldal. Hún dó líka ung það var keyrt yfir hana.

Næst var sérstakasti hundur sem við höfum átt, hún Nala, hreinræktuð labrador (gul) blíðasti og gáfaðasta skepna sem ég hef kynnst, en hún varð bara 5 ára gömul. Fékk hjartasjúkdóm, var fyrsti hundurinn sem var rafvent á Íslandi en lést þrátt fyrir alla þessa meðferð og frábæra þjónustu frá dýrlæknunum í Garðabæ.

Nú á ég frábæran veiðihund, Orku, frá Kolkuósræktun á Akranesi, yndisleg tík og fílhraust, hún er orðin 2 ára.

Afhverju labrador retriever, jú eftir að við misstum Ronju (golden) þá lá á að fá nýjan hund og ekki neitt golden-got í gangi svo við fengum okkur labrador og eftir að við kynntumst Nölu kemur aldrei til greina önnur tegund en labrador, blíðir, gáfaðir, skemmtilegir og rosalega þægilegir í allri umgengni og hafa svo gaman af að fá kennslu, hvort sem það er veiði, leit eða sem vinnuhundar.

Hundur hefur geysilega þýðingu fyrir fjölskyldulíf, að fá að verða einn af fjölskyldunni, börnin læra umgengni og ábyrgð við þessi frábæru dýr sem kenna síðan börnunum blíðu og þessa hreinræktuðu gæsku. Mikill félagskapur fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Líf með hundi er svo miklu betra, djúpur vinskapur og virðing.

 

Felix og labbinn