Grágás: Ef maður á hund…

Þórhildur Bjartmarz:

Lög um hundsbit á miðöldum.

Í bókinni Saga Íslands II sem Hið íslenzka bókmenntafélag gaf út 1975 skrifar Gunnar Karlsson, sagnfræðingur um Grágás lög þjóðvelsisaldar. Í kaflanum um stjórnmál skrifar Gunnar m.a.: Lög norrænna manna á miðöldum eru að ýmsu leyti frábrugðin lögum, eins og þau eru nú samin. Þar er yfirleytt lítt reynt að skapa almennar réttarreglur sem átt geti við í fjölda tilvika, heldur er leitast við að gefa reglur um sem flest hugsanleg tilvik í daglegu lífi. Þar er einnig víða stuðlasetning í máli, og ber hún vitni um munnlega varðveislu laganna. Grágás hefur þessi einkenni í nokkrum mæli. Í Staðarhólsbók er til dæmis þessi nákvæmi kafli um hundsbit:

Svo er mælt í lögum að engir hundar eigu helgi á sér. Ef maður á hund ólman, þá skal hann bundinn vera svo að hann taki eigi til manna, þá er þeir fara leiðar sinnar.

Ef hundur er bundinn fyrir búri manns eða búð eða stíu til varðar, þá ábyrgist sá sig er í band honum gengur, og svo þó að fénaður gangi í band hundinum, þá ábyrgist sá eigi er hund á. En band skal eigi lengra vera en tveggja álna á meðal staurs og helsis. Ef hundur  er bundinn í seti, þá skal hann eigi taka á stokk fram að bíta menn er ganga á gólfi. Nú er hundurinn bundinn í kamri, þá skal hann eigi taka til manns er hann gengur til kamars eða sest á tré eða tekur sér borðfæri.

Ef  maður bindur hund sinn óvarlegar en nú er mælt, eða er hann laus og bítur mann svo að blátt eða rautt verður eftir eða kemur blóð út, og varðar það þriggja marka útlegð þeim er hund á. Ef hundur bítur mann í brjósk eða í bein eða í sinar eða svo að örkuml verða eftir eða ílit svo að lækningar þarf við, þá varðar það allt fjörbaugsgarð þeim er hund á, en skógargang ef hin meiri sár metast. Það eru allt stefnu sakir, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er til fjörbaugssaka, en fimm til þriggja marka saka.

Ef hundur bítur mann svo að maður fær bana af, þá varðar þeim skóggang er hundinn á, og skal kveðja til níu búa heiman frá vettvangi og sækja að öllu sem aðra vígsök. En ef hundur manns bítur smala manna eða eltir smala manna á foröð út, skal sá maður er hund á bjóða hinum á 14 nóttum hinum næstum er hann spyr, þvílíkt fé sem farist hefir að hundsins völdum. En ef hann vill eigi láta í brott hafa féið sitt, þá skal hann bjóða hinum auvisla bætur slíkar sem búar hans fimm virða við bók.

Nú býður hann eigi þessa kosti, þá á hinn að stefna honum um það til útlegðar og til gjalda tvennra og kveðja til fimm heimilsbúa á þingi þess er sóttur er. Sá maður er hund leysir eða fer með hann svo að  hann vill sér láta fylgja, þá ábyrgist sá hundinn, þó að annar eigi. En ef hann kemur í för með manni og biður hann mat gefa honum eða annast um hann er þeir koma til búss, þá ábyrgist hann hundinn, þó að annar maður eigi. En eigi ábyrgist hann ef hann veitir sér engi afskipti.

(Þórhildur: ég geri greinabil til að auðvelda lestur en textann ætti með réttu að skrifa án greinabila)

Um Grágás:

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=14915

Gunnar Karlsson segir frá útgáfu á Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins:

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/97659/

http://www.arnastofnun.is/page/thekkthandrit_stadarh.bok.gragas:  Miðaldahandrit þjóðveldislaganna eru ekki mörg. Elst mun vera handritabrot frá síðara hluta 12. aldar. Það eru tvö skinnblöð (AM 315 d fol.) og er á þeim brot úr Landabrigðaþætti. Blöðin eru með allra fornlegustu handritabrotum íslenskum sem til eru. Nokkru yngri eða frá byrjun 13. aldar er um það bil helmingur af skinnblaði sem textinn hefur verið skafinn af öðrum megin og tvær ræmur af öðru blaði sem notaðar hafa verið í reimar í innsigli. Staðarhólsbók er annað aðalhandrit þjóðveldislaganna ásamt Konungsbók Grágásar sem nokkru eldri, talin skrifuð um 1250 og að mestu leyti af sama skrifara sem ritaði meginhluta Grágásar í Staðarhólsbók. Í Konungsbók eru fleiri þættir en í Staðarhólsbók en texti Staðarhólsbókar er á hinn bóginn víða ítarlegri. Hlutar þjóðveldislaganna eru einnig varðveittir í ýmsum lögbókarhandritum sem skrifuð voru á seinni öldum.