Aðventukvöld DÍS og Hundalífs miðvikudaginn 16. des

Þórhildur Bjartmarz:

Lestur bókarinnar Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson verður í húsnæði Dýraverndarsambandsins * miðvikudagskvöldið 16. desember. Húsið verður opið frá kl. 19  lesturinn byrjar kl. 19,30 og verður opið hús á meðan lestrinum stendur til ca 22 -22,30. Hægt er að læðast inn eftir að lesturinn hefst og stoppa eins lengi og hver vill.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands byrjar lestur bókarinnar en nokkrir hundavinir skipta með sér lestrinum

Það má ætla að Aðventa hafi selst í yfir milljón eintökum frá því hún kom út fyrir tæpum 70 árum. Þar af yfir 400.000 eintök í Þýskalandi. Sagan er til í dag á yfir 20 tungumálum – nýleg þýðing er rússnesk, en sagan var lesin á rússnesku í íslenska sendiráðinu í Moskvu á síðastliðnu ári í fyrsta sinn.

Söguna byggði Gunnar á frásögn Fjalla-Bensa, Benedikts Sigurjónssonar, af svaðilförum við eftirleitir á Mývatnsöræfum. Gunnar hafði verið um 20 ár að heiman þegar hann skrifaði söguna í Danmörku og merkilegt eftir langa dvöl fjarri heimahögum, hversu stórfengleg skrif hans eru um aðstæður á fjöllum um hávetur á öræfum Íslands.

Túlkun sögunnar hefur verið margvísleg og oft ansi háfleyg svo sem um hina heilögu þrenningu með vísun í vitringana þrjá svo og pælingar um lífsgildi Benedikts. En við dýravinirnir erum ekki í þvílíkum hugsunum á lestrakvöldinu okkar  – við ætlum einfaldlega hafa hugann við einstakt samband Fjalla – Bensa við dýrin sín, einkum Leo, sem skipar svo háan sess í sögunni. Hundsins sem ber alla eiginleika íslenska fjárhundsins og hvað hefði Bensi svo sem átt að gera hundlaus á fjöllum? Fyrir tíma GPS, GSM, vélsleða, fjórhjóla, brynvarða bíla og ekki síst hjálpsömu skátana?

Það eru ekki til margar ýtarlegar frásagnir af notkun hunda fyrr á tímum en í þessari sögu, Aðventunni, heyrum við sögu Leos, hundsins sem Fjalla–Bensi treysti óhikað fyrir lífi sínu.

Sjá umfjöllun um bókina á heimasíðu Skriðuklausturs:

http://www.skriduklaustur.is/index.php/is/skaldid/skaldverk/63-adventa 

 

24791

 

Jón Kalmann Stefánsson, rithöfundur skrifaði um Gunnar Gunnarsson og Aðventuna í Morgunblaðinu í jan 2006: (úrdráttur)

Benedikt á ferð með hundi og hrút, það eru hans félagar. Því hvernig, ef söguhöfundur vill ekki sífelt vera sjálfur með orðið, á að fylla síðurnar af orðum og atvikum, með hvaða hætti á að skapa hreyfingu og líf kringum Benedikt sem þrammar, fyrst upp úr sveitinni, síðan einsamall um öræfin, stundum mannhatursfull? Fátt er jafn djöfullegt fyrir höfunda, og fátt er jafn gott, og vandamál, þau gefa þeim tækifæri að koma með snjalla lausn, því eitt er að hafa hund og hrút í föruneyti, allt annað að gefa þeim jafn skýr, persónuleg einkenni og Leó og Eitill hafa. Maður gleymir því yfirleitt að þarna eru maður og dýr á ferð,  í huga manns eru þeir þrír félagar, ekki maður og dýr.

Eitill alvarlegur, með þungt skap, en traustur, harður, Leó hálfgerður gosi en ómissandi þegar á reynir. Leó er eiginlega senuþjófur bókarinnar, Gunnar skýtur inn hálfri setningu hér og þar, einfaldar athugasemdir um hund en samt einhvernveginn þannig að lesandinn skælbrosir og finnst um stund að veröldin sé býsna skemmtileg. Gunnar tekur raunar í bláupphafi sögunnar allan vafa af, að þeir séu fyrst og síðast félagar, ekki maður og dýr, og gerir það á þann hátt, að maður skynjar til botns að milli þeirra þriggja liggja þesskonar þræðir sem gerir lífið dýrmætt, heiminn að stað sem vert er að búa í.

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1060777/

 

*Húsnæði Dýraverndarsambands Íslands er á Grensásvegi 12 a. Athugið þetta er bakhús. Það verður kaffi á könnunni og svo auðvitað piparkökur.

http://www.dyravernd.is/

Stutt hlé ca 10 mín verður um kl. 20,30