Fordómar í hundarækt?

Það er að mörgu að hyggja fyrir þá sem rækta hunda. Hér á Hundalífspóstinum er athyglisverð grein sem birtist á síðu Norsk Kennelklub og Vigdís Magnúsdóttir gerði útdrátt úr.

http://hundalifspostur.is/2015/05/28/sjuklega-fallegt/

Þar er bent á að „ræktunin“ fer út slíkar öfgar að það bitnar á heilbrigði dýranna. En ræktun hunda á sér aðra bakhlið sem er þegar hundurinn fær ekki rétt útlit. Hér verður birt dæmi um viðbrögð fólks við hvolpum sem falla ekki í kramið sem Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og formaður Rithöfundasambands Íslands sendi okkur á dögunum.

 

Emilía Fluga var dóttir Fínu Línu og fæddist í svefnherbergi okkar hjóna. Sex hvolpar lifðu. Þar af fengu þrír Nabbasótt. Þeir börðust hetjulega og höfðu sigur. Litla Emilía Fluga var verst útleikin en braggaðist og varð lítið hörkutól með örótt andlit. Ræktunarráðið kom í heimsókn og skoðaði gotið, yndislegar konur sem tóku myndir og grandskoðuðu hvolpana. Þær fylgdu hreintrúarstefnu í ræktunarmálum eins og venja er og því bar þeim skylda til að ráðleggja að Emilíu yrði lógað þegar þær komu auga á mikið yfirbit sem hún hafði. Ein hafði á orði að hún væri ónýt og okkur þótti það æ síðan merkilegt orðalag. Eins var okkur sagt að hún myndi aldrei þrífast. Það yrði of erfitt fyrir hana að éta og nærast með þennan framstæða efri góm. Við mamma erum báðar með yfirbit og höfum aldrei átt í vandræðum með að nærast og mikið er ég nú fegin að þessi viðmið eru ekki við lýði hjá mannfólkinu. Það kom aldrei til greina að lóga Emilíu, en við hétum því að leyfa henni aldrei að eignast hvolpa. Því sé ég alltaf dálítið eftir þar sem hún var einstök vera og guðleg eins og ein kunningjakona lýsti henni. Yfirbitið lengdi trýnið svo hún átti létt með að anda, var lyktnæmari en ættingjar hennar og veikindin sem hún hafði sig upp úr svona ung gerðu hana að litlu hugrökku hörkutóli alla tíð. Hún varð tólf ára og verður alltaf sárt saknað.

Bróðir hennar, Kristófer, dó fyrir skömmu. Hann þótti alltof stór og langur af Kavalíer að vera. Ég held að hann sé fallegasti Kavalíerhundur sem ég hef á ævinni séð. Hann varð fjórtán ára.

Hundarækt er vafasamt hobbý sem auðvelt er að missa út í öfgarnar. Það byggir á hreinræktunarstefnu sem er einhver tegund af rasisma.