Sleppisvæðið á Selfossi

Á Selfossi er útivistarsvæði þar sem eigendur hunda koma saman og sleppa þeim lausum.  Svæðið er oftast kallað „sleppisvæðið“ og er staðsett nálægt hesthúsasvæðinu.  Hundalífspósturinn hafði samband við Ínu og Kristínu Jónu á Selfossi og bað þær um að senda okkur nánari upplýsingar um svæðið:

Sá gleðilegi atburður átti sér stað um mánaðarmótinn janúar – febrúar 2014 að sleppisvæði á Selfossi var formlega opnað fyrir hunda og eigendur þeirra.  Félagið varð til vegna áhuga nokkurra hundaeigenda sem töldu mikla þörf á að stofnað væri félag sem héldi utan um áhuga og baráttumál hundaeigenda. Félagið fékk svo nafnið Taumur. Í forgang var sett fram beiðni við sveitafélagið Árborg um samþykkt og að fundin yrði ákjósanleg staðsetning fyrir sleppisvæði. Stjórn Taums og Framkvæmdasvið Árborgar komust að sameiginlegri niðurstöðu um að hentugasta staðsetnig svæðisins yrði við Suðurhóla og Gráhellu. Lagt var af stað með að svæðið yrði einn hektari að stærð og að nauðsynlegt yrði að hafa göngustíg til að auðvelda fólki að ganga með hundunum sínum . Framkvæmdasviðið lagði mikla vinnu í að finna girðingu sem gæti hentað fyrir stóra og smáa hunda og að lokum varð fyrir valinu girðing sem er þétt neðst en möskvarnir víkka eftir því sem ofar er farið.( til gamans má nefna að girðingin var sérpöntuð fyrir svæðið ).

 

Fljótlega eftir að svæðið opnaði byrjuðu áhugasamir hundaeigendur að tala um að gaman yrði ef hægt væri að gróðursetja tré á svæðinu bæði til skjóls og einnig til að fegra umhverfið. Í byrjun október 2014 voru fyrstu trén sett niður af áhugasömum hundaeigendum og síðan þá hafa verið sett niður rúmlega 150 tré og græðlingar. Allar plönturnar og trén sem sett hafa verið niður á svæðið eru gjafir frá einstaklingum og einnig hafa nokkrir félagsmenn gefið bekki sem komnir eru á svæðið, steypt vatnskál og hlaðið hefur verið sæti úr hrauni sem var á svæðinu. Allt til þess gert að svæðið sé ekki bara skemmtilegt fyrir hunda heldur okkur eigendur líka. Svæðið hefur verið mjög vel sótt af fólki á staðnum og líka fólki sem á leið hjá. Okkur þykir það að vera komin með eigið sleppisvæði mikill áfangi og mikilvægt fyrir hundana okkar að fá að alast upp við það frá þvi að þeir eru bara lítil kríli að hitta aðra  hunda og jafnvel leika saman eða bara labba með sínum eiganda innan um aðra hunda og er það þá hin besta umhverfisþjálfun.

 

Kristín og Ína félagsmenn Taums.