Hundalíf á Íslandi

Jórunn Sörensen:

Ég á erindi til Akureyrar í haust og þarf að gista þar í nokkrar nætur. Ég hringdi í ferðaskrifstofu og bað um upplýsingar um gistingu þar sem ég gæti haft hundinn minn með mér. Fyrst var andartaks þögn svo kom: “Hund?!” Eins og ég viljað hafa með mér geimveru. Þannig að tónninn sýndi greinilega hversu fráleitt það var að ætla að gista á hóteli á Akureyri með hund. Hund!! En þetta var kurteis kona sem áttaði sig og ætlar að athuga málið og hringja í mig.

Nú, nú – síðan hringdi ég í Strætó með sama erindi. Ég þyrfti að fara til Akureyrar, ætlaði með strætó og hvort ekki væri í lagi að taka hundinn með mér. Svarið var þvert nei. Engin dýr. Ég spurði hver réði þessu og svarið var eigendur og stjórn Strætó bs.

Það er undrunarefni og mjög sorglegt að þrátt fyrir áratuga baráttu fólks fyrir leyfi til hundahalds í borg og bæjum á Íslandi skuli það enn ekki vera sjálfsagt að fara um borgina  landið í almenningsfarartækjum, setjast inn á kaffihús, eða gista á hóteli og vera með hund.

Leyfi til hundahalds fékkst með herkjum. Fyrir þetta leyfi borga hundaeigendur þúsundir króna árlega. Þessi gjaldtaka er bæði óviðunandi og fáránleg því svo eru þessi “löglega skráðu dýr” til óþurftar í návist almennings.

Sem einn af stofnendum bæði Hundavinafélagsins og Hundaræktarfélags Íslands hef ég sannarlega upplifað allar hliðar á skerðingu á réttindum okkar og hundanna okkar í samfélaginu. Nú áratugum síðar er ég bæði hissa og leið yfir því hve seint gengur að koma hundahaldi hér í eðlilegt horf. Með þessum orðum á ég við að yfirvöld hætti þessum neikvæða tóni í garð hunda og hundaeigenda. Í hvert sinn sem rætt er við yfirvöld um hunda er talað um að margir hundar séu ekki skráðir; að hundar kúki, hræði fólk og svo framvegis.

Ein dótturdætra minna býr og starfar í Stokkhólmi. Hún og maðurinn hennar eiga hund, Bjöllu sem er fædd á Íslandi. Ég fæ iðulega sendar myndir af Bjöllu á lestarstöð; í lestinni; í strætó; á kaffihúsi. Bjalla á vegabréf sem gerir henni kleift að ferðast um alla Evrópu með eigendum sínum – nema til Íslands. Þegar fjölskyldan fór í frí til Berlínar skiptu þau hótel hundruðum sem buðu Bjöllu velkomna. Það myndu nú ekki detta af okkur, Íslendingum, gullhringarnir þótt við færum að umgangast hundaeigendur og heimilishunda þeirra eins og eðlilegan part af samfélaginu.

Greinin birtist í Fréttablaðinu haustið 2014 og sýnir að ég vissi ekki hve bann ríkisvaldsis var gífurlegt og algert – sjá reglugerð um hollustuhætti 941/2002

http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/umhverfisraduneyti/nr/4555