Ofnæmi, óþrifnaður og hræðsla leigjenda

Þórhildur Bjartmarz

Á ruv.is í gær 5.maí.

Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins, sendi bréf til leigjenda sinna 12. mars þar sem segir að vegna fjölda kvartana sé áréttað að allt dýrahald sé bannað í íbúðunum. Hafi leigjendur, sem halda dýr, ekki fundið þeim nýjan samastað fyrir 15. maí, verði húsaleigusamningi rift.

Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri Brynju, segir að reglurnar hafi verið í gildi til fjölda ára. „Sumt fólk hefur ofnæmi fyrir köttum og hundum og síðan er auðvitað óþrifnaður og annað af dýrahaldi – þó að það sé ekki hjá öllum, þá koma alltaf upp tilfelli,” segir hann. „Og sumir eru auðvitað hræddir við dýr, til dæmis hunda. Það hefur leitt til þess að fólk er ekki að fara út úr íbúðunum sínum vegna þess að það er kannski hundur í næstu eða þarnæstu íbúð.”

Hvernig ætlar Brynja að taka á málum ef um er að ræða sérþjálfaðann hjálparhund eða blindrahund. Ef leigjanda stendur til boða að fá slíkan hund verður hann þá að flytja út á almennan leigumarkað. „Sumt fólk hefur ofnæmi fyrir köttum og hundum“:

Þessi endalausa umræða um ofnæmi fyrir köttum og hundum er merkileg. Við sem sífellt státum okkur af heilbrigði og hreinu lofti en erum svo mörg með ofnæmi þegar það hentar eða passar í umræðuna. Eða er orðið ofnæmi kannski misnotað. Hver hefur ekki heyrt „ég er komin með ofnæmi fyrir þessari ríkisstjórn“ eða „ég er með ofnæmi fyrir köttum“ sem á svo ekkert skylt við raunverulegt ofnæmi en er einhverskonar andlegt ofnæmi. Svona tal er óábyrgt og hlýtur að vera þreytandi fyrir þá sem eru með astma eða ofnæmi. “og síðan er auðvitað óþrifnaður og annað af dýrahaldi – þó að það sé ekki hjá öllum, þá koma alltaf upp tilfelli,”

 Íbúðirnar hljóta að vera tæmdar og þrifnar og jafnvel málaðar þegar skipt er um leigjendur og fólk gengur misvel um hvort sem það á gæludýr eða ekki. Þetta hlýtur að vera smámunir miðað við þá lífsfyllingu sem gæludýr gefur þeim sem þau halda. Sumir segjast ekki geta hugsað sér lífð án dýranna sinna. Það hljómar etv undarlega í eyrum þeirra sem aldrei hafa kynnst því að hafa gæludýr, hvað þá að gæludýr sé besti vinurinn jafnvel eini vinurinn. „Og sumir eru auðvitað hræddir við dýr, til dæmis hunda. Það hefur leitt til þess að fólk er ekki að fara út úr íbúðunum sínum vegna þess að það er kannski hundur í næstu eða þarnæstu íbúð.”

Já það eru einhverjir hræddir við hunda sem er ekkert skrítið því hér hefur hundum ávallt verið haldið í burtu frá öðru fólki en sjálfum hundaeigendunum. Með allskyns regluverki sem takmarkar umgengi við hunda eru margir sem kunna ekki og þora ekki að umgangast dýr. En reglur eins og þær sem Brynja hefur sett leysa ekki vanda þeirra.  Ef reglur hér á landi eiga eilíft að gilda hér og þar að hundar séu bannaðir af því að fólk sé hrætt viðhöldum við hræðslunni í stað þess að fólk venjist hundum í umhverfinu sínu. En ætli það sé ekki fleira hættulegt fólk en hundar í lífi okkar?

thorhildurbjartmarz@gmail.com