Fjölmiðlafulltrúi HRFÍ

Þórhildur Bjartmarz

Meira frá framboðsfundinum í Gerðubergi. Meðal annars var rætt um þörf fyrir fjölmiðlafulltrúa HRFÍ. Margir virtust sammála um að formaður og framkvæmdarstjóri ættu að sjá um þau mál og það væri þeirra að koma fram fyrir hönd félagsins.

Að mínu mati þarf þetta ekki að fylgjast að, en gott mál ef formaður og framkvæmdarstjóri treysta sér í verkefnið. Er t.d. núverandi framkvæmdarstjóri félagsins tilbúinn og hæfur til að vera fjölmiðlafulltrúi HRFÍ? Var það í liður í ráðningarsamningi? Nú er ég bara að spyrja, alls ekki að dæma.

Fjölmiðlafulltrúi þarf að gera meira en að sinna þeim erindum sem beinlínis eru send félaginu. Fjölmiðlafulltrúi þarf að hafa frumkvæði og koma málefnum félagsins til fjölmiðlana. Vekja athygli og koma á stað umræðum um nytsamlegt og skemmtilegt hundahald.

Ég er ekki í vafa um að næsti formaður sé hæfur í verkefnið en ég held að við hlið Herdísar Hallmarsdóttur þurfi annan fulltrúa sem er alltaf á vaktinni, tilbúinn til þess að hlaupa í verkefni hvenær sem er. Þegar ný stjórn tekur við á að finna hæfasta stjórnarmanninn í verkið.  Sá fulltrúi þarf svo að velja sér ráðgjafa sem hann treystir úr hópi félagsmanna t.d. blaðamann, dýralækni, hundaþjálfara, ræktanda o.s.frv.

HRFÍ hefur ekki átt góðan fjölmiðlafulltrúa síðan Guðrún R. Guðjohnsen hætti sem formaður félagsins. Þegar barátta félagsins var í eldlínunni um 1984 var Guðrún áberandi í fjölmiðlum brosandi og jákvæð. Það eru til ótal heilsíðu greinar í dagblöðum með viðtölum við formann HRFÍ um baráttumál félagsins. Þegar kosið var um hundahald í Reykjavík 1988 og niðurstöður kosninganna bornar undir formann HRFÍ þá sagði Guðrún eitthvað á þá leið að það væri ekkert að marka niðurstöðurnar því spurningarnar voru óljósar og illskiljanlegar. Þvílíkt svar hjá formanninum eftir frekar afleitar niðurstöður þeirra sem vildu hundahald í borginni.

thorhildurbjartmarz@gmail.com