Var orðinn leiður á að vera alltaf hræddur

Jóhanna Svala Rafnsdóttir skrifar:

Yngri sonur minn, sem er núna 10 ára, hefur nánast alla sína ævi verið dauðhræddur við dýr og þá sérstaklega hunda. Hann var tregur að fara út á sumrin þegar mikið var af flugum og almennt meira dýralíf og sveitaferðir með leikskólanum voru martröð fyrir hann. Verst af öllu var sveitahundurinn sem ráfaði um og þefaði af gestunum.

Þegar hann var tveggja ára fluttum við í fjögurra íbúða hús þar sem fyrir var einstaklega ljúfur border collie. Ef hundurinn var úti þá beið minn maður inni þangað til „hættan“ var liðin hjá. Svo var það einn daginn að hvutti var úti þegar sonurinn var að koma heim. Eigandi hundsins vissi um ástandið og bauð honum að klappa honum til þess að sýna drengnum hvað hann væri blíður og góður. Minn réttir út hendina og strýkur honum aðeins og kemur svo inn og var doldið ánægður með sig. Eftir þetta hætti hann að fela sig inni þegar hundurinn var úti.

Dag einn komst hann í kynni við afskaplega rólegan og góðan hund þar sem hann var í heimsókn hjá skólafélaga sínum. Hann sá fljótt að það var ekkert að óttast og eftir að hafa heimsótt vininn í nokkur skipti spurði hann hvort við gætum kannski eignast svona hund? Við misstum andlitið því þessu bjuggumst við ekki við frá honum en við höfðum lengi talað um að eignast einhvern tímann hund. En við tókum hann á orðinu og ári seinna var kominn hundur á heimilið. Við fengum okkur ekki þennan rólega hund sem sonurinn óskaði eftir heldur kom okkar hundur eins og jarðýta inn í fjölskylduna. En það sem er merkilegt er að hann er alltaf rólegur við yngri strákinn og á því eina og hálfa ári sem er liðið hefur hann algerlega losnað við hundahræðsluna. Núna spyr hann hvenær við ætlum að fá okkur annan hund – í viðbót!

Róbert-Diddi-Kobbi

Ef þú vilt gera athugasemd við þennan pistil sendu mér þá línu á johannasvali@gmail.com