Hundasamþykktir sveitarfélaga

 Þorsteinn Kristinsson skrifar:

Þeir sem hafa kynnt sér hundasamþykktir sveitarfélaga um allt land hafa tekið eftir því að þær eru mjög misjafnar. Í sumum samþykktum eru komin inn ákvæði sem eru verulega íþyngjandi og mjög langt er seilst inn á borð hundaeigenda. Í aðdraganda nýrra eða breyttra hundasamþykkta hjá sveitarfélögum er ekki gert ráð fyrir neinu samráði við hagsmunaaðila né fagaðila. Hundaeigendur hafa því enga möguleika á að koma með athugasemdir við hundasamþykktir fyrr en eftir að þær hafa tekið gildi. Sveitarfélögin hafa svo engan hvata af því að lagfæra hundasamþykktir þegar ábendinum hefur verið komið á framfæri. Lög um samþykktir sveitarfélaga eru svo opin að þeim er bæði heimilt að setja reglur sem eru ekki í öðrum lögum eða reglum og þeim er líka heimilt að setja ítarlegri kröfur en tilgreindar eru í reglugerðum. Sveitarstjórnir hafa því í raun algjört alræðisvald gagnvart hundaeigendum. Það að flytja á milli sveitarfélaga er því flókið mál því þó hundaeigandi uppfylli skilyrði í einu sveitarfélagi þá gæti hann verið að brjóta þau í því næsta. Og þó hundaeigandi uppfylli reglur í nýju sveitarfélagi þá getur samþykktin breyst án fyrirvara og hann hefur ekkert um það að segja.

Ef þú vilt koma með athugasemd eða þitt álit er mailið mitt; thorstk@gmail.com