Hvernig gastu ekki átt hund?

Mbl Skapti Hallgrímsson

 

Hallgrímur Helgason orti óbundin ljóð um tvítugt en fékk ekki gefin út. Nú, mörgum skáldsögum og hefðbundnum ljóðum síðar, er komin frá honum bók með óbundnum ljóðum, sem urðu til á göngu með tíkinni Lukku.

 

„Hundurinn kveikti á einhverri nýrri stöð í mér. Ég var alltaf í sveit í gamla daga og hændur að hundum en það var svo vegna þrýstings frá yngstu dóttur minni að við fengum okkur Lukku. Núna segir konan mín: Hvernig gastu ekki átt hund? Það er einhver bóndi í manni, einhver gamall strengur,“ segir Hallgrímur í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

 

“Ég sest ekki niður til að semja þessi ljóð heldur leyfi þeim að koma til mín á göngunni og skrifa niður þegar ég kem inn, en hef ekki mikið verið að breyta þeim eftir á eða vinna þau mikið áfram. Þetta er meira spurning um að hnykkja á efninu en þrykkja meiru í það. Ég hef í raun lítil völd yfir þessum kveðskap; játa mig sigraðan og ljóðin koma bara eins og þau koma.“

 

Hallgrímur segir göngutúrana með Lukku eins og veiðitúra. „Stundum kemur ekkert, stundum eitt ljóð, stundum tvö eða þrjú.“

 

Hann yrkir gjarnan á morgnana. „Við göngum mikið í Laugarásnum, þar er óbyggt svæði þar sem hundurinn getur verið laus. Ég er svo með vinnustofu nálægt Framvellinum, við göngum í kringum hann, og um helgar fer ég oft upp að Rauðavatni, það er fallegt svæði. Svo eru göngutúrar í Hrísey.“

 

Hundurinn breytti skáldinu. „Lukka er núvitundarmeistari,“ segir Hallgrímur. „Hún lætur mann lifa meira í núinu en ég gerði áður. Fyrr á tíð hugsaði maður oft um að gaman væri að yrkja einhvern tíma seinna um þetta eða hitt en nú gerist það strax. Hugmynd að ljóði getur kviknað við litla vængjaða hreyfingu í 20 metra fjarlægð um leið og stigið er út úr bílnum. Maður veit aldrei hvenær það gerist og verður því að vera viðbúinn. Í bókinni segir: Ljóðið kviknar aðeins hinum verklausa. Maður þarf eiginlega að vera ekkert að gera. Þegar maður er á fullu í vinnu kemur ekkert en þegar maður slakar á, er einn að hangsa með hundinum, þá koma ljóðin.“

 

Hallgrímur kveðst á sínum tíma hafa verið hugfanginn af Jónasi Hallgrímssyni. „Ég varð fyrir miklum áhrifum frá Jónasi og fór að ríma og stuðla; draumurinn var að ná tökum á því. Mér fannst maður ekki fullburða rithöfundur nema hafa tök á ferskeytluforminu, stakhendunni og sonnettuforminu; öllum þessum gömlu formum. Ég gaf út kvæðabók með þannig efni 1998 en fannst ég svo lenda í öngstræti; þetta hentaði ekki alveg nútímanum. Hugmyndirnar urðu líka svo margar að eitthvað varð undan að láta. Það má segja að ég hafi gefist upp fyrir móderníska ljóðinu, sem ég hafði barist gegn ungur maður. Og þegar ég tók niður varnirnar fóru ljóðin að flæða.“

Síðan fjölskylda Hallgríms Helgasonar eignaðist tíkina Lukku fara skáldið og hundurinn daglega í göngutúr.  Á því ferðalagi streyma óbundin ljóð fram í huga skáldsins. Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

http://pappir.mbl.is/index.php?alias=IS-MBL&s=8547&p=196153

 

  lukka