Börn lesa fyrir Spóa

Jórunn Sörensen:

Það var einn sunnudaginn á þessu fallega hausti sem við Spói upplifuðum óvænt mikið ævintýri. Kvöldið áður hringdi Ragnheiður Elín Clausen í mig. Ragnheiður er ein af þeim sem sjá um lestrarverkefni Vigdísar (félagið Vinir gæludýra á Íslandi). Erindið var að vita hvort við Spói gætum mætt daginn eftir niður á Borgarbókasafn í Grófinni í Yndislestur Vigdísar – þar sem hundar hlusta á börn lesa. Sá hundur og eigandi sem áttu að vera höfðu forfallast. Ég sagði að sjálfsögðu já, takk við Ragnheiði.

Það skal samt játað að ég var nokkuð hugsandi. Þið sem lásuð frásögnina af því þegar við Spói fórum á námskeið fyrir væntanlega lestrarhunda hjá Vigdísi í maí sl. hafa sennilega ekki séð það fyrir sér að Spói yrði liðtækur sem lestrarhundur þar sem hann náði ekki prófinu fyrr en í annarri tilraun. Spói er þó enginn nýgræðingur í því að hlusta á lestur því frá því að hann var hvolpur hefur hann ævinlega legið í sófanum við hliðina á barnabörnunum þegar afi les fyrir þau. Ég ákvað því að láta reyna á þetta.

Við fórum tímanlega í bæinn og lögðum í Bjarkargötunni – það er svo þægilegt að viðra hund í Hljómskálagarðinum. Þar röltum við um góða stund og eins og alltaf var Spói áhugasamur að „lesa dagbókina“ –  athuga hvaða hundar hafi komið í garðinn síðan hann var þar síðast og merkja allt upp á nýtt.

Þegar það var afstaðið héldum við niður í bæ. Niður í þessa yndislegu mannmergð útlendinga sem heimsækja landið okkar. Um helgar eru Íslendingar ekki í miðbænum – þeir eru í kringlum og smáralindum.

Á réttum tíma mættum við á bókasafnið og héldum ásamt umsjónarkonu og Ragnheiði í lyftunni upp á fimmtu hæð. Þótt Spói hafi aldrei áður farið í lyftu lét hann sér ekki bregða við það frekar en annað sem upp kemur á ferðum okkar – hvort sem við erum uppi á heiðum eða í miðbæjum. Ég er búin að finna það út að þegar Spói lendir í einhverju sem hann hefur ekki reynt áður hugsar hann: „Mamma mín er ekki hrædd og þá er ég það ekki heldur.“

Uppi á fimmtu hæðinni var okkur úthlutaður staður, Ragnheiður dró teppi og marga púða upp úr töskunum sínum og við komum okkur fyrir. Í næsta horni var annar hundur með sínum eiganda.

Á þessum tæpum tveimur klukkustundum lásu fimm börn fyrir Spóa. Hvert barn fær 20 mínútur. Þau voru á aldrinum frá sex til þrettán ára. Það þarf ekki að orðlengja það að Spói hagaði sér afskaplega vel. Hann var rólegur en samt glaður og sýndi börnunum áhuga. Stundum horfði hann á þau og stundum lá hann – fékk sér jafnvel blund. Það var notalegt að sjá þegar lítil hendi læddist yfir á hundinn og strauk fót eða hvarf inn í loðinn belginn á meðan lesið var. Og á meðan börnin lásu laumuðust mömmur þeirra til þess að taka myndir á símana sína.

Klukkan þrjú var þetta afstaðið og við Spói þökkuðum fyrir okkur og fórum niður í lyftunni og út á götu. Gengum aftur í gegnum bæinn og upp á Bjarkargötu þar sem bíllinn stóð. Ákaflega góð og gefandi stund að baki.

http://borgarbokasafn.is/is/content/hundar-sem-hlusta-%C3%AD-gr%C3%B3finni

http://hundalifspostu.is/2016/05/26/lesid-fyrir-hund-3/

20160125_102143

Spói er þó enginn nýgræðingur í því að hlusta á lestur því frá því að hann var hvolpur hefur hann ævinlega legið í sófanum við hliðina á barnabörnunum þegar afi les fyrir þau.

 

jorunn-og-spoi