Að bjarga mannslífi

Þórhildur Bjartmarz:

Við höfum fundið meira en 50 týndar manneskjur. Við höfum rakið slóðir eftir annan eins fjölda manna að sjó og vötnum sem síðan hafa fundist drukknaðir. Við höfum upplýst innbrot, ég hef persónulega handtekið tvo innbrotsþjófa og einn morðingja.

Sá sem hér segir frá er hæglátur maður sem margir kannast við. Hann er engin hundakall en starfaði þó með hunda nánast hvern dag í 46 ár. Hver var þá ástríðan? Jú að bjarga mannslífi.

Snorri Magnússon pípulagningarmaður í Hafnarfirði sá um þjálfun sporhunda í eigu Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði óslitið frá árinu 1960 til 2006. Hundalífspósturinn heimsótti Snorra og fór yfir ótrúleg afrek hans, þjálfun og leitarvinnu með sporhundana.

 

Hver var kveikjan að starfi Hjálparsveitarinnar með sporleitarhunda:

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík átti blóðhundinn Jake sem Jón Guðjónsson hafði umsjón með. Jón  þekkti ágætlega til blóðhunda og hvernig þeir kæmu að gagni við leit að týndu fólki. Það var árið 1960, ég var sextán ára og nýbyrjaður í Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði þegar Jón Guðjónsson þáverandi formaður sveitarinnar hafði forgöngu um að sveitin flutti inn sporhund frá Bandaríkjunum. Hundurinn átti að vera þriggja ára og fullþjálfaður. Ég sé það núna að það var bjartsýni að halda að við fengjum þannig hund fyrir þá fjármuni sem við höfðum yfir að ráða. Fullþjálfaður sporhundur kostar margar miljónir. Þegar við fengum svo hundinn þremur árum síðar var hann á tólfta ári og á síðasta snúningi. Þá var Jón Guðjónsson eini maðurinn sem hafði þekkingu á sporhundum látinn. Við stóðum eftir með gamlan hund og höfðum enga þekkingu á sporrakningu með hundi.

 

Fyrsta útkallið:

Því miður kom Nonni ekki að neinu gagni. Það kom í minn hlut að fara með Nonna ásamt öðrum manni upp í Borgarfjörð til að leita að litlu barni. Hundinum tókst ekki að finna barnið og varð það úti. Þetta hafði þau áhrif á mig að ég hét því að ég skyldi þjálfa upp sporhund hvað sem það kostaði. Þetta var stór ákvörðun því í fyrsta lagi hafði ég engan hund, ekkert fjármagn, ég átti ekki bíl né hjálparsveitin til að nota við hundaæfingar. Það versta var samt að enginn hafði trú mér. Ég var  reynslulaus í þjálfun hunda. En það sem gerði þetta mögulegt var að ég er þrjóskari en andskotinn og hætti ekki við það sem ég hef ákveðið.

 

Bangsi:

Bangsa, blending af blóðhundi og schäfer fékk ég í Keflavík. Hann var fyrsti hundurinn sem ég þjálfaði en hann var ekki gott efni í sporhund því hann var svo mikil mannafæla. Ég hafði ekkert annað um að velja svo ég varð að nota hann. Á þessum tíma var Hjálpasveitin komin í samband við norsku lögregluna þeir sendu okkur kennslubækur um hvernig ætti að þjálfa sporhunda. Ég var þá þegar byrjaður að nota eigin aðferðir sem gáfu góðan árangur og ég hélt mig við þær.  Fínu kennslubækurnar frá Noregi enduðu rykfallnar í skúffu.

Ég lagði mjög mikla vinnu í þjálfun Bangsa sem var erfið vegna þessu hversu hræddur hann var við fólk. Ennfremur var aðstaðan sem við höfðum vægast sagt léleg. Lögreglan í Hafnarfirði sýndi okkur fádæma velvilja í ótal skipti óku þeir okkur út fyrir bæinn þegar við vorum við æfingar. En oft gátu þeir ekki náð í okkur aftur og við urðum að fara gangandi heim. Einn félagi í sveitinni lánaði okkur stundum bíl.  Við höfðum heldur enga aðstöðu fyrir hundinn hjá Hjálparsveitinni. Bangsi var í kofa á lóð foreldra minna og eftir að ég eignaðist gamlan jeppa var hann í aftursætinu á meðan ég var að vinna og ég viðraði hann í kaffi- og matartímum. Síðan tóku við hundaæfingar öll kvöld og helgar.

snorri og Bangsi

Innflutningur hunda var bannaður:

Jú innflutningur hunda var bannaður með lögum á þessum árum.  Páll A. Pálsson, yfirdýralæknir var þver og vildi alls ekki innflutning hunda. Eftir fundi með Páli fengum við undanþágu frá banninu og sveitin fékk að flytja inn alla þá hunda sem við óskuðum eftir en með talsverðri fyrirhöfn. Við lögðum okkur fram við að fylgja öllum þeim reglum sem Páll setti okkur.

Snorri og leitarhundarnir

Fleiri blóðhundar:

Árið 1970 tók ég við nýjum blóðhundi Korra og svo Comet ári síðar. Hjálparsveitin flutti inn alls 12 hunda frá Bandaríkjunum og Englandi. Blóðhundarnir voru stolt okkar í Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði. Ég þjálfaði þessa hunda frá grunni og naut aðstoðar annarra í Hjálparsveitinni. Auk þeirra tóku vinir og kunningjar þátt í að leggja slóð. Fólk hringdi jafnvel í mig og bauðst til að leggja slóð.

 

Það var ekki óalgeng sjón að sjá Snorra á hlaupum eftir sporhundi yfir úfið hraunið á svæðum í kringum Hafnarfjörð. Hvernig var æfingunum háttað?

Þjálfun sporhundanna var afar umfangsmikið og tímafrekt starf. Ég fékk aðstoð við að leggja slóð á hverjum degi í byrjun þjálfunar. Þegar hundarnir voru komnir vel af stað þá voru sporæfingar tvisvar í viku. Eins og fyrr segir fékk ég aðstoð fjölskyldunnar og félaganna í Hjálparsveitinni við lagningu spora. Við byrjuðum með stuttar slóðir og svo allt upp í u.þ.b. 30 kílómetra. Hundurinn var síðan látin lykta af flík af viðkomandi sporleggjara og finna slóð hans mörgum klukkutímum síðar. Æfingarnar fóru fram víða í mismunandi landslagi og að sjálfsögðu í öllum veðrum. Slóðin byrjaði t.d. í Reykjavík og endaði í Hafnarfirði.

 

Alvöru útköll:

Ég hef skráð öll útköll sem ég hef farið í með hundana. Þau hafa verið mörg en stundum hefur leit verið afturkölluð áður en sjálf leitin hófst. Sporhundarnir vísuðu á sporaslóðir yfir 100 manna undir minni stjórn. Þegar ég var með hundana stóð ég vaktina allan sólahringinn. Þessari vinnu þurfti að sinna á öllum tímum sólahringsins og vera tilbúinn hvenær sem útkallið kom. Að leita með sporhundum eru erfiðustu leitir sem björgunarmaður lendir í. Ég hef verið veðurtepptur úti á landi í tíu sólahringa, þurft að vaka á þriðja sólarhring og þrisvar verið nærri dauður. Ég hef verið kallaður úr afmælum, árshátíðum og leikhúsum.

Að baki flestra útkalla er fjölskylduharmleikur, ég hef þurft að fara inn á heimili þeirra sem leita á að til að fá föt fyrir sporhundinn til að lykta af. Í leiðinni hef ég tekið inn á mig kvíða og örvæntingu aðstandenda. Það var ekki fjallað um öll þessi útköll í fjölmiðlum en sum voru meira áberandi t.d. leitaði ég með sporhundi í Geirfinnsmálinu, ég hef komið að morðmálum og fór í leit og fann morðingja á Skeiðársandi.

xxxxxx5xxxxx55

Hvað segir Elísabet, eiginkona Snorra:

Snorri var byrjaður að þjálfa sporhundana þegar við kynntumst. Við vorum alltaf bundinn yfir þeim. Þegar við fórum að heiman snérist allt um að vera komin heim fyrir matartíma og þjálfun hundanna. Ég samþykkti eitt sinn að hafa hundana í mánuð hérna heima en þeir voru hér í þrjú eða fjögur ár. Hundalyktin var yfirþyrmandi og mikill sóðaskapur í kringum þá. Dætur okkar tóku þátt í þjálfun hundana með sporalagningu. Það má segja að heimilislífið hafi snúist um hundana.

Auðvitað var ég oft hrædd um Snorra sérstaklega þegar hann fór í leitina á Skeiðársandi. Við vissum öll að hann leitaði að vopnuðum ógæfumanni sem hafði drepið unga stúlku.

Ég er ákaflega stolt af öllu því starfi sem Snorri skilaði með hundunum í Hjálparsveit skáta. Ég veit að hann hefur nokkrum sinnum fundið fólk nærri dauða en lífi þar sem hver mínúta hefur skipt máli. Hann hefur ótal sinnum bjargað mannslífum.

merkilegt ævistarf

Eftirmáli Þórhildar:

Það er erfitt að gera stutta grein fyrir öllu því sem Snorri hefur áorkað með sporhundana. Það sem hér kemur fram er aðeins lítið brot af því sem athyglisvert er að segja frá.

Því hefur verið haldið fram í mín eyru að bestu sporhundar á Norðurlöndum og sennilega í allri Evrópu hafi verið staðsettir í Hafnarfirði á þessum árum sem Snorri var með hundana. Hann var snemma á ferlinum byrjaður að vinna með einstaklingsspor og hann veigraði ekki fyrir sér að æfa spor á malbiki sem margir töldu ógerlegt.

Það vakti sérstaka athygli mína þegar ég fór að fylgjast með Snorra að hann hafi getað þjálfað svona frábæra sporhunda án nokkurar sérfræðiaðstoðar. Í gögnum hans sá ég að erlendir sérfræðingar á þessu sviði hafa komið til Snorra til að fylgjast með hans vinnu. Meira að segja hélt Snorri viku námskeið fyrir norska lögreglumenn og síðar fyrir háttsettan lögreglumann í dönsku hundalögreglunni.

Ótal margir einstaklingar komu Snorra til aðstoðar í sporhundanefndinni í öll þessi ár og veittu honum ómetanlega aðstoð. Má þá nefna að öðrum ólöstuðum Sigurð Gunnarsson og Friðrik Garðarsson en þeir veittu Snorra mikla aðstoð. En þessi grein var sérstaklega um skátann Snorra og hans framlagi til leita með sporhundum í tæplega 50 ár. Vonandi eigum við eftir að lesa í einhverri bók ítarlegri frásögn um Snorra og þeirra sem að málum komu við fjáröflun, innflutning og þjálfun Blóðhunda Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði.

Hundalífspósturinn þakkar Snorra og fjölskyldunni fyrir þeirra framlag til björgunarmála. Einnig fyrir greinasafn og úrklippur sem við fengum að láni við þessi skrif.

Hér fylgja með nokkrir tenglar á greinar um leit með blóðhundunum:

Leitin á Skeiðársandi:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=278720&pageId=4017378&lang=is&q=%E1%20Skei%F0ar%E1rsandi

Snorri og sporhundarnir í Vikunni 1990:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=299931&pageId=4521091&lang=is&q=SPORHUNDAR

Þau þefa þá týndu uppi Mbl 1972:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=115098&pageId=1430681&lang=is&q=Sporhundar

Vísir um sporhundinn Sám 1979:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=249585&pageId=3406608&lang=is&q=sporhundar

Vopnað bankarán 1995:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=282446&pageId=4083424&lang=is&q=bankar%E1n%20bankar%E1n%20Vesturg%F6tu

.