Viðtal við Line Sandstedt

Jórunn Sörensen:

Norski hundaþjálfarinn Line Sandstedt var með námskeið hér á landi á dögunum og hélt einnig fyrirlestur. Hundalífspósturinn náði að króa Line af á þessum annríkisdögum og spurði hana nokkurra spurninga.

Fyrst langaði mig að vita hvenær Line hefði eignast sinn fyrsta hund og hve lengi hún hefði þjálfað hunda.

Ég var 14 ára þegar ég fékk minn fyrsta hund en áður hafði ekki verið hundur á heimilinu. Þetta var schäfer, sagði Line og svipurinn sýndi að þetta væri kannski ekki alveg rétta tegundin sem fyrsti hundur unglings. En sem betur fer var þetta góður hundur, bætti hún við og ég fékk hann með því skilyrði að fara á námskeið einu sinni í viku.

Námskeiðið var haldið fimm kílómetrum frá heimilinu en Line hélt sínu striki og fór með sinn hund í hverri viku á námskeið. Þetta varð upphafið að hennar lífi sem hundaþjálfari því henni gekk mjög vel og fékk svo mikinn áhuga.

Næst langaði mig að vita hvort það væri mikill munur á hundahaldi og námskeiðshaldi í Noregi og hér á landi.

Line svaraði því til að munurinn væri gífurlegur. Í Noregi er miklu lengri hefð fyrir því að halda hund sem félaga og sem einn af fjölskyldunni. Í Noregi þykir það sjálfsagt að hundur heimilisins noti sófann eins og aðrir fjölskyldumeðlimir og engum dettur í hug að fetta fingur úr í það. Þetta gerir að viðhorf til hunda í Noregi er allt annað og betra en almennt gerist hér á landi. Þessi munur nær einnig til námskeiða fyrir hunda sem eru miklu algengari þar og þykir alveg sjálfsagt að fara með hunda á námskeið. Þar eru líka miklu fleiri góðar fyrirmyndir sem er hvetjandi fyrir fólk að þjálfa sinn hund.

Line vissi að hér er nýlega búið að halda próf í Hlýðni II en engin eftirspurn hefur verið fyrir slíku prófi í háa herrans tíð. Í Noregi eru stöðugt haldin námskeið í Hlýðni II. Og þar eru einnig haldin námskeið í Hlýðni III og Elite.

Ég minntist á námskeiðið sem hún var nýbúin að halda. Þar hefðu engir litlir hundar verið – hvernig væri þetta í Noregi? Einnig að allir þátttakendurnir voru konur. Er það líka svo í Noregi? Hvernig má það vera?

Line svaraði því til að þannig væri það líka þannig í Noregi, engir eða mjög fáir litlir hundar fara á hlýðninámskeið. Aftur á móti fara þeir nær allir á hvolpanámskeið. Ástæðan fyrir því að svo miklu fleiri konur en karlar fara á námskeið með hundinn, telur Line m.a. vera breyttar þjálfunaraðferðir. Jákvæðar aðferðir virðast höfða frekar til kvenna sem eiga auðveldara með jákvæð samskipti við hundinn og að fagna þegar vel gengur.

Ég sagðist hafa séð framfarir hjá þátttakendum á námskeiði helgarinnar.

Line brosti og sagði að það yrðu alltaf framfarir, eigendur næðu betri tökum á samskiptum sínum við hundinn og þá gengi allt betur. En, bætti hún við og brosið hvarf, það getur verið erfitt hjá sumum að tileinka sér nýjar aðferðir. Gengur í smá tíma en síðan fer allt í sama farið og þegar viðkomandi kemur aftur á námskeið er eins og ekkert hafi gerst. Hundaeigandi þarf að tileinka sér, til frambúðar, þær samskiptaaðferðir og viðmót við hundinn sem þeir læra á námskeiðinu.

Í lokin spurði ég Line hvert væri hennar mottó í kennslu í þjálfun hunda.

Það stóð ekki á svarinu. Það skiptir öllu máli að samband eiganda og hunds sé jákvætt og að bæði eiganda og hundi finnist gaman að vinna saman. Annars er öll þjálfunarvinna tilgangslaus og miklu betra að fara bara í gönguferð „í skóginum“ með hundinn sinn.