Á kvennréttindadaginn

Þórhildur Bjartmarz:

„Það hefði engin tekið mark á þessu félagi ef formaðurinn hefði verið kona“ sagði frú Sigríður Pétursdóttir ræktandi og dómari við mig þegar ég spurði af hverju hún hafði ekki verið fyrsti formaður Hundaræktarfélags Íslands. En Sigríður Pétursdóttir var einn aðalhvatamaðurinn að stofnun félagsins. Sigríður átti eftir að verða formaður félagsins mörgum árum síðar.

Konur eru í miklum meirihluta þegar fjallað er almennt um hundalífið. Hvort sem það er í þjálfun eða prófum. Í einni grein er þó meirihlutinn karlmenn en það er í veiðiprófum og þjálfun veiðihunda. Veiðiprófsdómarar fyrir fuglahunda eru allir karlmenn en ein kona er veiðiprófsdómari fyrir retriever hunda.

Það eru fleiri konur hundaþjálfarar en karlar. Í skapgerðarmati, hlýðni, spori, hundafimi og á sýningum eru konur í miklum meirihluta. Hjá ungum sýnendum frá 10 ára aldri  sjáum við miklu fleiri stelpur en stráka.  Hlutföllin eru amk tuttugu stelpur á móti tveimur strákum en stundum keppa engir strákar.

Undanfarin ár hafa átt sér stað ýmsar breytingar í átt til jafnréttis kynjanna, t.d. sjáum við fleiri konur við þjálfun veiðihunda. Karlmenn koma nú í auknum mæli með smáhunda á námskeið en slíkt sást ekki fyrir nokkrum árum síðan. Við sjáum líka karlmenn á sýningum með smáhunda sem þótti ekki sérlega karlmannlegt áður fyrr. Ég man eftir tilfelli þar sem þekktur veiðimaður kom með smáhund fjölskyldunnar á sýningu. Þetta var fyrir ca 15 árum á hundasýningu í Gusti. Þetta þótti mörgum körlum miður. „Að hann Palli láti sýna sig á hundasýningu með smáhund.“ En Palli þorði og varð ekki minni maður fyrir vikið.

Það skiptir ekki máli fyrir hundinn hvort eigandinn er karl eða kona. Hundurinn þarf foringja sem er hæfur í hlutverkið. Hvers vegna sjáum við konur í svo miklum meirihluta í alls kyns vinnu með hunda hér á landi veit ég ekki. Við konur fögnum því að sjálfsögðu að við erum í miklum meirihluta á því sviði.